Alíslenskt límtré í pressu í verksmiðju Límtrés-Vírnets á Flúðum. Ljósmynd: Einar Bjarnason
Alíslenskt límtré í pressu í verksmiðju Límtrés-Vírnets á Flúðum. Ljósmynd: Einar Bjarnason

Merkur áfangi hefur nú náðst í þróun og nýtingu viðarafurða á Íslandi. Íslenskt sitkagreni hefur hlotið vottun sem þarf til að framleiða megi úr því viðurkennt límtré í mannvirki. Gæðastjóri hjá Límtré-Vírneti segir að með einbeittari ræktun á nytjaviði til slíkrar framleiðslu ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu í framtíðinni að framleiða alíslenskt límtré. Hér vanti þó einsleitari framleiðslu og þróaðri vinnsluferli timburs frá fellingu að vinnslustað.

Sýnishorn af miða eins og notaðir eru til að merkja vottaða íslenska grenilímtréðUm vottunina sá norska vottunarstofan Treteknisk í samræmi við evrópskar reglur og staðla. Einar Bjarnason, gæðastjóri hjá Límtré-Vírneti, segir að þetta sé merkur áfangi. Þetta sé svokölluð framleiðsluvottun og til að hljóta slíka vottun þurfi að gera ýmsar prófanir, bæði á framleiðslustaðnum og með því að senda sýni til víðtækari prófana í Noregi.

Vottunarferlið tók um hálft ár en veirufaraldurinn tafði það nokkuð. Ef allt gengur upp tekur slíkt ferli allt niður í þrjá mánuði, segir Einar. Þetta sé ekki mjög kostnaðarsamt eða tímafrekt. Meginmarkmiðið er að koma upp gæðakerfinu sem vottunin er byggð á til þess að framleiðslan standist settar kröfur. Treteknisk í Noregi er löggilt vottunarstofa með vottunarleyfi og gerir úttektir sem þessa um alla Evrópu. Þessi tiltekna vottun nær ekki til timburs af siktagrenitrjám í heild. Þetta þýðir einungis að nú getur Límtré-Vírnet framleitt vottað límtré úr íslensku sitkagreni í verksmiðju sinni á Flúðum.

Þessi vinna er angi af margvíslegu samstarfi undanfarin misseri sem Skógræktin hefur tekið þátt í ásamt Trétækniráðgjöf slf., Límtré Vírneti og fleirum.

Enn langt í land

Þótt þessum áfanga sé náð er ekki þar með sagt að hægt sé nú þegar að hefja límtrésframleiðslu stórum stíl úr íslensku greni. Einar segir að hérlendis vanti einbeitta ræktun á nytjaviði til tiltekinnar framleiðslu sem þessarar. Í límtrésgerð þurfi einsleita framleiðslu en nokkuð vanti upp á að sá efniviður sem er fáanlegur hérlendis uppfylli þau skilyrði. Íslensku grenitrén séu misþétt í sér og meiri breytileiki í íslenska timbrinu en því innflutta. Ef vel ætti að vera þyrfti að hugsa ræktunaráætlanir frá upphafi með lokaafurðina í huga, skipuleggja umhirðu með tilliti til þess, auk þess sem nauðsynlegt sé að koma þurrkun og flokkun timburs í fastan farveg. Hér vanti einsleitari framleiðslu og þróaðri vinnsluferli timburs frá fellingu að vinnslustað.

Timburvagn með íslensku sitkagreni úr Stálpastaðaskógi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonSkógrækt á Íslandi er ung grein og þessi atriði eiga með tímanum eftir að þróast hér í þá átt sem við þekkjum í nágrannalöndunum. Ekki er sanngjarnt að bera saman það litla magn sem nú fæst úr íslensku skógunum og það stórfellda viðarmagn sem unnið er í Skandinavíu til dæmis. Þar ytra er allt timbur vélflokkað en hérlendis er það sjónflokkað enda stórvirk tæki og háþróaðar viðarvinnslur ekki til í landinu enn sem komið er. Einar segir hins vegar að með framleiðsluvottun á límtré úr íslensku greni sé mjög mikilvægu stigi náð. Nú verði auðveldara að sækja fé í verkefni til áframhaldandi þróunar.

Ýmis verkefni eru raunar í gangi og til dæmis sögðum við nýlega hér á skogur.is frá spennandi þróunarstarfi sem snýst um að nota íslenskan jarðvarma við þurrkun á timbri sem gæti orðið sú visthæfasta í heiminum.

Timburverð rýkur upp

Einar bendir líka á að margt sé að gerast á timburmarkaðnum um þessar mundir. Timburverð hafi farið mjög hækkandi á einu ári, ekki aðeins vegna veirufaraldursins. Skaðvaldur á trjám í Kanada dregur úr framboði þaðan. Samtímis fari eftirspurn vaxandi, til dæmis vegna aukinnar notkunar á timbri í mannvirki. Menn sjái líka fjárfestingartækifæri í því að kaupa timbur til að veðja á að selja síðar þegar verð hafi hækkað enn meir. Allt þetta ýti verðinu upp á við. Hann segir að frá miðju síðasta ári láti nærri að verð á timbri sem hentar til framleiðslu á límtré og krosslímdum einingum hafi tvöfaldast. Þetta þýðir að norrænt efni er mjög eftirsótt enda er aðallega notað greni í framleiðslu límtré og krosslímdum einingum því að grenið er léttur en sterkur viður með langar trefjar.

Vottunin sem íslenska grenilímtréð hefur nú fengið er varanleg en gera þarf tvær viðhaldsúttektir á ári í framleiðsluferlinu til að halda henni við. Einar segir að framleiðsla á límtré úr íslensku greni verði áfram tilraunaverkefni enda íslenska efnið mun dýrara en það innflutta. Boltinn sé nú hjá íslenskum skógræktendum sem verði að koma sér upp tækjabúnaði svo hægt sé að útvega meira efni. Þar á hann bæði við vélar til að fella skóginn og sækja viðinn en einnig sögunar- og flokkunarlínur fyrir timbur.

Hvatning fyrir skógargeirann

Vottun á framleiðsluferli límtrés úr íslensku greni sýnir fram á að vinnslan sé möguleg, segir Einar. Alíslenska límtréð hafi lent í ívið lægri styrkleikaflokki en límtré úr innfluttum viði en það breyti ekki miklu. Þá sé límtréð einfaldlega haft dálítið efnismeira til að ná sama styrk eininganna. Þá telur hann jafnframt að ekki þurfi mikið til að ná hærri styrkleikaflokki með þróun á öflun viðarins. Hjá Límtré-Vírneti sé hægt að fylgjast með þessu því þar eru til öll þau prófunartæki sem þarf til að mæla t.d. tog- og brotþol efnisins. 

Þessi áfangi ætti að vera hvatning fyrir skógargeirann á Íslandi að huga betur að ræktun sitkagrenis, umhirðu greniskóga og þróun viðarvinnslu í landinu fyrir innlendan timburiðnað framtíðarinnar.

 

Texti: Pétur Halldórsson