Að afhendingu lokinni á Mógilsá. Frá vinstri: Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, Björn B. Jó…
Að afhendingu lokinni á Mógilsá. Frá vinstri: Hallgrímur Jónasson, forstöðumaður Rannís, Björn B. Jónsson Skógræktinni, Eiríkur Þorsteinsson Trétækniráðgjöf, Guðríður Helgadóttir LbhÍ og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ráðherra. Ljósmynd: Rósa Björk Jónsdóttir

Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tók á föstudag við fyrsta eintakinu af nýju riti sem hefur að geyma viðskiptaflokkun á timbri úr íslenskum barrtrjám. Reglur um slíka flokkun eru mikilvægt skref í uppbyggingu timburiðnaðar hérlendis.

Ritið Gæðafjalir - Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjámRitið heitir Gæðafjalir - Viðskiptaflokkun á timbri úr barrtrjám. Það er afurð Treprox-verkefnisins sem er þriggja ára þróunarverkefni með styrk úr Erasmus+ áætlun Evrópusambandsins. Tilgangur verkefnisins er að styrkja stoðir þess timburiðnaðar sem er smám saman að verða til á Íslandi. Vinna að þessu verkefni hófst á þessu ári og stendur til ársins 2022.

Aðdragandinn var samkomulag um samstarf í gæðamálum viðarnytja sem gert var árið 2018 milli Skógræktarinnar, Landssamtaka skógareigenda, Landbúnaðarháskóla Íslands og Skógræktarfélags Reykjavíkur, fyrir hönd Skógræktarfélags Íslands. Markmiðið með þessu samstarfi er að unnið verði samkvæmt stöðlum með þær íslensku trjátegundir sem nýta má til timburframleiðslu. Til að svo megi verða þurfa að vera fyrir hendi staðlar fyrir hverja og eina viðartegund. Úr varð að ráðist var í þetta evrópska samstarfsverkefni, TreProx, sem stendur fyrir„Innovations in Training and Exchange of Standards of Wood Processing“. Styrkur Erasmus+ til verkefnisins nam 40 milljónum króna.

Óhjákvæmilegt er að setja reglur um flokkun timburs svo byggja megi upp timburiðnað hérlendis. Með útgáfu Gæðafjala er stigið skref til að innleiða á Íslandi þá viðskiptaflokkun á timbri sem nú er í gildi annars staðar á Norðurlöndunum. Slík flokkun tryggir að sögunarmyllur framleiði timburafurðir sem uppfylla kröfur og eftirspurn neytandans. Flokkunin gildir bæði fyrir innanlandsmarkað og útflutning.

Bókin er ekki eingöngu hagnýt fyrir iðnaðinn og kaupendur á timbri heldur verður hún einnig notuð sem kennsluefni fyrir starfsmenn í tréiðnaði sem geta þar með öðlast réttindi til flokkunar á timbri.

Meðfylgjandi myndir voru teknar á Mógilsá þegar ráðherra tók við fyrsta eintakinu af Gæðafjölum föstudaginn 13. nóvember 2020 ásamt Hallgrími Jónassyni, forstöðumanni Rannís. Ráðherra lýsti mikilli ánægju sinni með þennan áfanga og hvatti fólk í skógrækt og skógariðnaði til að halda starfinu áfram að nýsköpun á sviði timburnytja hérlendis. Auk bókarinnar þáði ráðherra að gjöf myndarlega fjöl úr íslensku greni sem nú prýðir ráðuneyti iðnaðar- og nýsköpunarmála og vekur athygli á skógarauðlindinni sem er að byggjast upp í landinu.

Um þýðingu bókarinnar úr sænsku sá Eiríkur Þorsteinsson, trétæknir hjá Trétækniráðgjöf slf., en útgefendur eru Skógræktin, Landbúnaðarháskóli Íslands og Trétækniráðgjöf slf. Björn B. Jónsson, verkefnastjóri afurðamála hjá Skógræktinni, hefur haft með höndum verkefnisstjórn TreProx-verkefnisins hingað til en nú hefur Guðríður Helgadóttir tekið við keflinu.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Rósa Björk Jónsdóttir LbhÍ