Um 25 lítrum af birkifræi sem safnaðist á Norðurlandi í landsátaki á liðnu hausti var dreift á Hólasandi 25. maí. Valið var svæði á sandinum þar sem dreift hefur verið gori úr sláturhúsi og fæst nokkur samanburður á því hvernig fræinu reiðir af með og án áburðaráhrifa frá gornum. Þessa dagana er verið að dreifa síðasta fræinu úr landsátakinu og fer það meðal annars í Selfjall í Lækjarbotnum þar sem sumarstarfsfólk sér um dreifinguna.
Notendur rafræns dagatals Skógræktarinnar geta nú skipt um skjámynd á tölvum sínum og sett inn dagatal júnímánaðar. Á því er ljósmynd Atla Arnarsonar ljósmyndara af sveppnum teygjuhelmu, Mycena epipterygia.
Skemmdir á sitkagreni í Reykjavík af völdum sitkalúsar eru umfjöllunarefni nýrrar greinar sem komin er út í ritrýnda tímaritinu Icelandic Agricultural Sciences. Þar er sagt frá rannsókn sem bendir til þess að samspil hærri vetrarhita, aukinnar tíðni faraldra og aukið köfnunarefni í barrnálum séu helstu ástæður fyrir auknum skemmdum á sitkagrenitrjám í Reykjavík.