Sitkalús á grein sitkagrenis. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir
Sitkalús á grein sitkagrenis. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir

Í ritrýndri grein sem komin er út í tímaritinu Icelandic Agricultural Sciences segir frá rannsókn sem bendir til þess að samspil hærri vetrarhita, aukinnar tíðni faraldra og aukið köfnunarefni í barrnálum séu helstu ástæður fyrir auknum skemmdum á sitkagrenitrjám í Reykjavík.

Meðal greinarhöfunda eru tveir starfsmenn rannsóknasviðs Skógræktarinnar, Edda Sigurdís Oddsdóttir sviðstjóri og Ólafur Eggertsson sérfræðingur. Aðalhöfundur er Juliane Kuckuk við landfræðideild Johannes Gutenberg háskólans í Mainz í Þýskalandi og aðrir meðhöfundar Jan Esper við sama skóla og Sibren van Manen við deild hagnýtrar líffræði við HAS-háskólann í Den Bosch í Hollandi. Þau Juliane og Jan Esper voru bæði í starfsnámi við rannsóknasvið Skógræktarinnar og unnu rannsóknina þar.

Greinin er á ensku en með íslenskum útdrætti. Þar segir að sitkalús (Elatobium abietinum) valdi oft talsverðum skemmdum á sitkagreni (Picea sitchensis) á Íslandi. Samanburður á sitkagrenireitum í Reykjavík, frá 2013 til 2017, leiðir í ljós afgerandi mun á skemmdum vegna sitkalúsar í nánd við fjölfarnar götur (94% skemmdarhlutfall) og trjáa í nokkur hundruð metra fjarlægð frá umferðaræðum (47%). Efnagreiningar á barri sitkagrenisins sýna einnig umtalsvert hærra hlutfall köfnunarefnis í trjám nálægt fjölförnum götum. Einnig hefur hækkun vetrarhita síðustu ára (frá 2003) valdið því að stærri stofnar lúsarinnar lifa af veturinn og fært sitkalúsarfaraldra frá hausti til vors. Þegar vöxtur trjánna er skoðaður sjást greinileg neikvæð áhrif ári eftir sitkalúsarfaraldra.

Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að helstu ástæður fyrir auknum sitkalúsaskemmdum í Reykjavík sé samspil hærri vetrarhita, aukinnar tíðni faraldra og hækkun á hlutfalli köfnunarefnis í nálum borgartrjáa.

Frétt: Pétur Halldórsson