Birkifræinu var dreift á svæði á Hólasandi þar sem áður hafði verið dreift gori til áburðar. Til að …
Birkifræinu var dreift á svæði á Hólasandi þar sem áður hafði verið dreift gori til áburðar. Til að fá samanburð var líka dreift utan gorsvæðisins. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Um 25 lítrum af birkifræi sem safnaðist á Norðurlandi í landsátaki á liðnu hausti var dreift á Hólasandi 25. maí. Valið var svæði á sandinum þar sem dreift hefur verið gori úr sláturhúsi og fæst nokkur samanburður á því hvernig fræinu reiðir af með og án áburðaráhrifa frá gornum. Þessa dagana er verið að dreifa síðasta fræinu úr landsátakinu og fer það meðal annars í Selfjall í Lækjarbotnum þar sem sumarstarfsfólk sér um dreifinguna.

Talsverður snjór var enn á Hólasandi þegar fulltrúar Skógræktarinnar fóru þangað þennan þriðjudag undir lok kuldaskeiðsins sem stóð lengst af maímánaðar. Þótt svalt hafi verið í veðri á Norðurlandi mestallan mánuðinn var kuldinn ekki meiri en svo að birki og annar gróður var farinn að láta dálítið á sér kræla. Frá Skógræktinni fóru Brynjar Skúlason og Pétur Halldórsson til frædreifingarinnar og ásamt þeim tveir starfsnemar sem dvelja þessa mánuðina hjá skógarverðinum á Norðurlandi á Vöglum, þau Alexander frá Danmörku og Esmée frá Hollandi. Fulltrúar Landgræðslunnar voru svæðisfulltrúarnir Berglind Ýr Ingvarsdóttir og Salbjörg Matthíasdóttir.

Áður en fræinu var dreift voru skoðaðar tilraunir sem stofnanirnar tvær standa að á sandinum með notkun moltu við skóggræðslu á örfoka landi, í samvinnu við Moltu ehf. í Eyjafirði. Þar eru ýmsar aðferðir skoðaðar og samhliða gróðursetningu á birki og lerki er prófað hvernig nokkrum belgjurtategundum reiðir af með hjálp moltunnar. Vonir eru bundnar við að lágvaxnar belgjurtir sem ekki eru frekar í landinu geti hjálpað til við að byggja upp jarðveginn á ný.

Svæðið sem valið var til birkifrædreifingarinnar er skammt frá Kísilveginum svokallaða um miðbik Hólasands þar sem dreift hefur verið gori frá sláturhúsi Norðlenska á Húsavík. Gorinn myndar þunna skán ofan á sandinum og inniheldur ýmis næringarefni sem nýtast gróðrinum vel. Áberandi var að gorinn hafði strax í fyrra, á fyrsta sumri eftir dreifingu, styrkt þann litla gróður sem fyrir var á sandinum og forvitnilegt verður að sjá hvernig birkifræið spírar í skáninni. Þetta verkefni er ekki skipulögð tilraun en samt sem áður var prófað að dreifa fræinu bæði á gorsvæðið og utan þess til að fá a.m.k. einhverjar vísbendingar um áhrifin. Á svæðinu er stopul lúpína sem eitthvað hjálpar líka til og mögulega verður hægt að sjá áhrif hennar á birkið sem sprettur upp.

Sem kunnugt er var efnt til þjóðarátaks á liðnu hausti til söfnunar og sáningar á birkifræi. Nokkur hundruð kíló af fræi söfnuðust, mest á höfuðborgarsvæðinu, og hefur það farið til sáningar í Gunnarsholti, á Hekluskógasvæðinu og víðar. Þessa dagana er verið að koma síðasta fræinu í jörð og sjá sumarstarsfmenn á vegum Kópavogsbæjar um það undir stjórn Kristins H. Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Kópavogs. Fræinu er dreift í uppgræðslusvæði í Selfjalli í Lækjarbotnum og verður gaman að fylgjast með árangrinum af þeirri sáningu eins og öðrum.

Texti: Pétur Halldórsson