Safnhaugamolta sem unnin er úr garðaúrgangi lofar mjög góðu við trjárækt á örfoka landi eins og Hóla…
Safnhaugamolta sem unnin er úr garðaúrgangi lofar mjög góðu við trjárækt á örfoka landi eins og Hólasandi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Notkun moltu virðist vera álitleg aðferð til að koma upp gróðureyjum birkis og flýta fyrir fræmyndun og útbreiðslu þess á örfoka landi. Moltan hefur marktækt jákvæð áhrif á vöxt og hreysti birkis miðað við annars konar áburð. Þetta er meðal niðurstaðna úr tilraunum Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu ehf. með notkun moltu við skógræktarverkefni á Hólasandi.

Um þetta er fjallað í eftirfarandi grein sem birtist í fyrra tölublaði Skógræktarritsins 2019.

Inngangur

Hólasandur er eyðimörk norðan Mývatns, um 14.000 ha að stærð. Sandurinn markast af Sandvatni að sunnan og gróðurlendi vestan Þeistareykja að norðan. Mestur hluti hans liggur í 300-400 m hæð yfir sjó. Segja má að fyrra vistkerfi svæðisins sé fullkomlega hrunið3. Þegar betur er rýnt í landið má þó finna ýmsar plöntutegundir s.s. eski, móasef, holurt, sauðamerg, lambagras, geldingahnapp, krækilyng, loðvíði og eini svo nokkur dæmi séu nefnd. Með heppilegum stuðningi gætu þær tegundir sem fyrir eru náð aukinni útbreiðslu í bland við trjágróður og niturbindandi landgræðslujurtir.

Skipulegar landgræðsluaðgerðir á vegum Landgræðslunnar, til að hindra jarðvegseyðingu á Hólasandi, hófust um 1960. Uppgræðslustarfið fékk svo aukinn kraft árið 1993 að fumkvæði samtakanna Húsgulls á Húsavík og með framlagi frá Hagkaupum og Umhverfissjóði verslunarinnar. Frekari upplýsingar um sögu eyðingar, markmið uppgræðslunnar og árangur fyrstu aðgerða má finna í skrifum Stefáns Skaftasonar og Andrésar Arnalds3.

Þór Kárason4 tók saman yfirlit um árangur landgræðslu á Hólasandi með áherslu á vöxt og viðgang trjágróðurs. Þar kemur fram að elsta birkið er um 1-2 m á hæð og sums staðar má sjá frærekla. Sérstaklega virðist gróðursetning birkis í melgresi, sem fylgt er eftir með léttri áburðargjöf, lofa góðu. Þá kemur fram að stafafura virðist fara afar hægt af stað á meðan lerkið aftur á móti vex um 25 cm á ári og jafnvel meira þar sem best lætur. Á grundvelli úttektar á árangri leggur Þór Kárason4 til aukna áherslu á gróðursetningu birkis og lerkis í svæðið. Hann bendir jafnframt á að ræktun lúpínu geti torveldað ræktun og landnám viðartegunda og skoða þurfi betur hvaða aðferðir séu árangursríkastar.

Mynd 2. Birki og lerki til gróðursetningar. Birkið kröftugt en lerkið frekar smátt og jurtkennt. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHjá Moltu ehf. á Þveráreyrum í Eyjafjarðarsveit falla til árlega um 10.000 m3 af moltu sem getur m.a. nýst sem áburður til uppgræðslu. Til að nýta þetta hráefni ákváðu fulltrúar Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu að prófa með skipulegum hætti hráefnið moltu sem áburðarefni fyrir trjáplöntur á Hólasandi.

Birki er dæmigerð frumherjategund sem ætla mætti að gæti þrifist á svæði eins og Hólasandi og aukið útbreiðslu sína út frá gróðureyjum. Rússalerki hefur sýnt fádæma dugnað á rýrum melum á Norður- og Austurlandi, þar á meðal á Hólasandi. Af þessum ástæðum var ákveðið að skoða áhrif moltunnar á lifun og vöxt birkis og lerkis sérstaklega og hvaða verklegar aðferðir við nýtingu hennar kæmu helst til greina.

Tilraunin er samstarf Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu ehf. Aðilar skiptu með sér verkþáttum s.s. efni, vinnu og sérþekkingu eftir því sem best hentaði.

Aðferðir

Ekki var vitað hvort betra væri að hafa moltuna kringum plönturnar eða blanda henni saman við sandinn og þess vegna var ákveðið að prófa hvort tveggja og bera þær meðferðir saman við áburðargjöf með kjötmjöli, hefðbundna áburðargjöf með tilbúnum áburði og viðmið með engum áburði.

Birki og lerki var gróðursett á Hólasandi í júlíbyrjun 2015 (sjá tilraunasvæðið á mynd 1). Báðar tegundirnar voru í 67 gata bökkum í 50 cm3 pottum. Birkið var ársgamalt (sáð vorið 2014) en lerkinu hafði verið sáð snemma vorið 2015 og var því frekar smátt og jurtkennt miðað við hefðbundnar ársgamlar plöntur (sjá mynd 2).

Mynd 3. Plönturnar gróðursettar í gegnum moltuna í meðferðinni „molta ofan á“ (t.v.) eða í moltuna blandaða við sandinn í meðferðinni „molta blandað“ (t.h.). Ljósmyndir: Pétur HalldórssonGróðursett var í byrjun júlí. Allir meðferðarliðir með moltu og öðrum áburðarefnum voru prófaðir fyrir báðar trjátegundir.

Svæðinu var skipt upp í 6 blokkir fyrir hvora trjátegund og alls voru 10 endurekningar innan hverrar blokkar, samtals 60 plöntur fyrir hverja meðferð. Meðferðirnar voru eftirfarandi:

 • 4 lítrar af kraftmoltu ofan á sand, gróðursett gegnum hrúguna (sjá mynd 3 og 4).
 • 4 lítrar af kraftmoltu blandað við sandinn, stungið einu sinni með malarskóflu og velt við, gróðursett í blandið (sjá mynd 3 og 4).
 • 30 gr. kjötmjöl kringum plöntu (8,5-9% N og 4,75% P, Hreinn Óskarsson, munnleg heimild).
 • 10 gr. tilbúinn áburður kringum plöntu (Sprettur 23-13).
 • Enginn áburður.

Efnainnihald moltu er breytilegt og háð hráefnum og gerjunarstigi á hverjum tíma. í ritgerð Hermanns Inga Gunnarssonar2 mældist innihald niturs 2,4%, fosfórs 0,57% og kalí 0,34% reiknað út frá þurri kraftmoltu.

Mynd 4. Plönturnar gróðursettar í gegnum moltuna í meðferðinni „molta ofan á“ (t.v.) eða í moltuna blandaða við sandinn í meðferðinni „molta blandað“ (t.h.). Ljósmyndir: Pétur HalldórssonTil viðbótar voru prófaðar nokkrar hugmyndir til samanburðar af annars konar útfærslu. Þær prófanir voru einungis endurteknar 10 sinnum (engar blokkir) en gefa engu að síður vísbendingar um hvað fleira gæti verið vert að skoða frekar í framtíðinni. Þessar meðferðir voru eftirfarandi:

 • Safnhaugamolta
 • Hvítsmári í hnaus, sáð í bakkann áður en gróðursett var
 • Lúpína í hnaus, sáð í bakkann áður en gróðurett var
 • Tilbúinn áburður í holu (10 korn) undir plöntuna (sjá mynd 5)
 • Hvítsmára sáð í moltu
 • Lúpínu sáð í moltu

Eins og myndirnar bera með sér er svæðið ákaflega einsleitt og ekki ástæða til að ætla að mikill munur komi fram innan og milli blokka í tilrauninni.

Mynd 5. Tíu áburðarkorn sett undir plöntu (t.v.) og sáning lúpínu (t.h.) í moltu sem blandað var við sandinn. Ljósmyndir: Pétur Halldórsson

Niðurstöður og umræða

Almennt má segja að lifun hafi verið mjög góð í gróðursetningunum þrátt fyrir að Hólasandur virðist ekkert kjörlendi fyrir smáar skógarplöntur. Veðurfar var nokkuð hagstætt strax eftir gróðursetningu, með bæði raka og sól, sem kann að hafa ráðið nokkru um góða lifun eftir 4 vaxtarsumur (sjá mynd 6 og 7).

Mynd 6 og 7. Meðallifun birkis 2018 eftir fjögur vaxtarsumur (t.v.). Lifun lerkis 2018 eftir fjögur vaxtarsumur með 95% vikmörkum (t.h.). Mynd: Brynjar SkúlasonMynd 8 og 9. Hæð birkis haustið 2018 með 95% vikmörkum. (t.v.) Liðir sem bera ólíka bókstafi eru marktækt ólíkir í hæð (p0,05). Hæð lerkis haustið 2018 með 95% vikmörkum (t.h.). Liðir sem bera ólíka bókstafi eru marktækt ólíkir í hæð (p0,05). Myndir: Brynjar Skúlason Lifun í birkinu var það góð að ekki reyndist unnt að reikna 95% vikmörk en vísbending er um að enginn áburður gefi lakastan árangur og miðað við lélegt útlit birkiplantna án áburðargjafar er líklegt að þar verði afföll á næstu árum umfram aðrar meðferðir. Ekki var hægt að greina marktækan mun á lifun milli meðferða í lerkinu. Lifunin heilt yfir í lerkinu var lakari en hjá birkinu. Veiklulegar og ungar plöntur til gróðursetningar kunna þar að hafa áhrif. Algeng lifun í skógrækt er á bilinu 65%-75%1. Lakasta meðferðin í tilrauninni var lerki án áburðar með 80% lifun eftir 4 vaxtarsumur á sandinum sem er betra en almennt gerist í skógrækt. Þessi samanburður undirstrikar að lifun lerki- og birkigróðursetninga á Hólasandi getur verið afbragðsgóð.

Lifunin segir þó ekki alla söguna því breytileiki í vexti og útliti eftir meðferðum var mjög áberandi (sjá mynd 12 og 13).

Munur á hæð milli meðferða var mun marktækari en munur í lifun hjá báðum trjátegundum (sjá mynd 8 og 9).

Mynd 10 og 11. Meðalhæð birkis að hausti 2015, 2016 og 2018 (t.v.). Meðalhæð lerkis að hausti 2015, 2016 og 2018 (t.h.). Myndir: Brynjar Skúlason

Á myndunum (8 -13) má sjá að hvers kyns áburðargjöf skilar sér í vexti og skyldi engan undra á svæði eins og Hólasandi þar sem næringarefni eru augljóslega af skornum skammti. Sérstaklega virðist moltan hafa jákvæð áhrif á birkið. Allar meðferðir í birkinu skila vaxandi meðalhæð plantna frá 2015 nema þar sem enginn áburður var gefinn. Þar beinlínis lækkar meðalhæð birkis (sjá mynd 10). „Molta blandað“ virðist hér vera að skila sér sérlega vel síðustu tvö sumur. Allar meðferðir skila aukinni meðalhæð hjá lerkinu þó svo að plöntur án áburðar séu marktækt lægstar (sjá mynd 11).

Munurinn á útliti plantnanna, svo sem á blaðstærð, lit og hraustleika, var áberandi hjá báðum trjátegundunum, bæði milli meðferða, t.d. „molta blandað“ og þeirra sem engan áburð fengu (myndir 12 og 13).

Á meðan birkiplönturnar sem fengu moltu standa hraustlegar og áberandi í sandinum eru viðmiðunarplönturnar (enginn áburður) nær ósýnilegar svo hinn sjónræni munur er augjós og e.t.v. meiri en tölulegur samanburður á hæð gefur til kynna (sjá mynd 12).

Mynd 12. Mismunandi útlit birkiraða eftir meðferðunum „molta blandað“ (t.v.) og „enginn áburður“ (t.h.) Ljósmyndir: Pétur Halldórsson

Sjónrænn munur á lerkinu er augljós þó svo að sá munur sé minni en hjá birkinu (sjá mynd 13).

Miðað við útlit plantnanna verður að teljast líklegt að bilið milli moltumeðferðanna og viðmiðs (enginn áburður) muni aukast á næstu árum bæði hvað varðar lifun og hæðarvöxt. Í heild er ávinningurinn af notkun moltu greinilega miklu meiri fyrir birki en lerki.

Við skipulagningu tilraunarinnar vaknaði áhugi á að prófa fleiri útfærslur, t.d. samspil við belgjurtir. Til að takmarka heildarumfang tilraunarinnar var ákveðið að gera sýnishorn af þessum hugmyndum, einungis 10 endurtekningar (eina röð) fyrir hvora trjátegund, sem e.t.v. gætu gefið vísbendingar um hvað vert væri að skoða nánar í framtíðinni (sjá myndir 14 og 15).

Mismunandi útlit lerkiraða eftir meðferðunum „molta blandað“ (t.v.) og „enginn áburður“ (t.h.). Ljósmyndir: Pétur Halldórsson

Þar sem endurtekningar eru fáar er ekki hægt að reikna hvort mismunandi meðferðir gefi marktækan mun í lifun og hæð, svo niðurstöðurnar verða að skoðast sem vísbendingar. Sýnishornaraðirnar benda þó enn frekar til að moltan henti birkinu vel. Þarna kemur líka í ljós að önnur gerð af moltu sem eingöngu er úr garðaúrgangi, hér kölluð safnhaugamolta, gefst frábærlega fyrir báðar trjátegundir.

Fáein áburðarkorn undir plönturnar gáfu mjög góða raun og sumarið eftir gróðursetningu voru a.m.k. birkiplönturnar sem fengu þessa meðferð sérlega jafnar og fallegar. Eftir fjögur vaxtarsumur í sandinum voru áburðaráhrifin þó farin að dvína verulega og trén í þessari meðferð farin að dragast aftur úr.

Meðal meðferða var sáning af hvítsmára og lúpínu í þeim tilgangi að taka við því hlutverki að afla köfnunarefnis þegar áburðarmeðferðirnar færu að gefa eftir. Frekar illa gekk að fá hvítsmárann og lúpínuna til að spíra og vaxa þegar fræið var sett í bakkann með plöntunum fyrir gróðursetningu. Betri árangur fékkst við að dreifa fræinu í moltuna kringum plöntuna, sérstaklega hvað varðar hvítsmárann (um 50% árangur).

Mynd 14 og 15. Meðalhæð birkis eftir ýmsum sýnishornameðferðum 2018, fjögur vaxtar (t.v.). Meðalhæð lerkis eftir ýmsum sýnishornameðferðum 2018. Myndir: Brynjar Skúlason

Ályktanir

 • Notkun moltu hefur marktækt jákvæð áhrif á vöxt lerkis samanborið við enga áburðargjöf
 • Notkun moltu hefur marktækt jákvæð áhrif á vöxt og hreysti birkisins miðað við enga áburðargjöf, kjötmjöl og tilbúinn áburð
 • Betri árangur fæst til hæðarvaxtar með því að blanda moltunni saman við sandinn frekar en að hafa hana ofan á, en þetta er ekki úrslitaatriði
 • Vísbendingar eru um að safnhaugamolta sé betri en kraftmolta
 • Moltan virðist jákvæð til að auka spírun, t.d. hjá hvítsmára
 • Notkun moltu gæti verið gagnleg aðferð til að koma upp gróðureyjum birkis og flýta fyrir fræmyndun og útbreiðslu þess

Heimildir

 1. Bergsveinn Þórsson. 2008. Lifun skógarplantna á starfssvæði Norðurlandsskóga. BS-ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands.
 2. Hermann Ingi Gunnarsson. 2013. Áburðargildi moltu í túnrækt. BS-ritgerð. Landbúnaðarháskóli Íslands.
 3. Stefán Skaftason og Andrés Arnalds. 2004. Uppgræðsla Hólasands. Fræðaþing landbúnaðarins 2004. s. 359-362.
 4. Þór Kárason. 2017. Uppgræðslur á Hólasandi: Ársskýrsla 2017 – áætlun 2018. LR 2017/28, Gunnarsholt.
Höfundar: Brynjar Skúlason, Pétur Halldórsson og Daði Lange Friðriksson
Greinin hefur áður birst í Skógræktarritinu 1/2019