Birkiplönturnar í tilrauninni eru allar lifandi og líta vel út. Það sama er að segja um lerkið
Birkiplönturnar í tilrauninni eru allar lifandi og líta vel út. Það sama er að segja um lerkið

Vætutíðin kom sér vel

Tilraun til notkunar moltu við trjárækt á sandauðn var sett niður á Hólasandi í byrjun júlí í sumar eins og greint var frá í frétt hér á skogur.is 8. júlí. Tilraunin er samvinnuverkefni Skógræktar ríkisins, Landgræðslunnar og Moltu ehf. Settar voru niður birki- og lerkiplöntur í 11 mismunandi tilraunahópa. Aðalmarkmiðið var að sjá hvernig gengi að nýta moltu frá jarðgerðarstöð Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit sem nesti fyrir trjáplöntur í mjög snauðu landi en í leiðinni eru gerðar ýmsar prófanir með tilbúinn áburð, kjötmjöl og sáningu niturbindandi plantna.

Daði Lange, héraðsfulltrúi Landgræðslunnar á Norðausturlandi, fór á Hólasand miðvikudaginn 12. ágúst og leit á tilraunina. Í ljós kom að allar plönturnar sem gróðursettar voru í tilraunareitnum eru lifandi og lúpína og hvítsmári sem sáð var með sumum trjánna er að koma upp.


Svo vel vildi til að daginn eftir gróðursetninguna rigndi duglega á Hólasandi. Sú rigning kom eins og kölluð enda mikilvægt fyrir nýgróðursettar plöntur að fá nægan raka til að koma sér fyrir. Því er ljóst að þurrkur eftir gróðursetningu mun ekki spilla fyrir niðurstöðum tilraunarinnar og þótt svalt hafi verið á Hólasandi frá því í byrjun júlí virðist kuldinn ekki hafa komið að sök og vætutíðin frekar hjálpað til en hitt. Á meðfylgjandi myndum má sjá að birkið lítur mjög vel út og Daði segir að sömu sögu sé að segja um lerkið.

Með Daða í för voru skógfræðinemar við Landbúnaðarháskóla Íslands sem voru í yfirreið um landið ásamt Bjarna Diðriki Sigurðssyni prófessor til að fræðast um skógrækt í landinu og ýmis skógræktarverkefni. Í september er meiningin að gera fyrstu úttekt á tilrauninni á Hólasandi og ef til vill er þarna komið efni fyrir áhugasama nemendur til að skrifa um í námi sínu.


Hér sjáum við líka lúpínuplöntur sem skjóta upp kolli í sandinum. Birkið mun njóta góðs
af áburðaráhrifum lúpínunnar og forvitnilegt verður að bera saman áhrif lúpínu og hvítsmára.
Einnig verður spennandi að sjá hvernig samanburðurinn verður við moltuna.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Daði Lange