Katrín Ásgrímsdóttir í Sólskógum sýnir gestum frá Skógræktinni birkiplöntuframleiðslu í stöðinni, þe…
Katrín Ásgrímsdóttir í Sólskógum sýnir gestum frá Skógræktinni birkiplöntuframleiðslu í stöðinni, þeim Hreini Óskarssyni, Þresti Eysteinssyni og Sigríði Júlíu Brynleifsdóttur. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Íslendingar hlutu fimm af átta styrkjum sem úthlutað var í vor í samvinnu NordGen og Norrænna skógrannsókna, SNS. Megináherslan í íslensku umsóknunum var á skógarplöntuframleiðslu og rannsóknir sem henni tengjast. Alls nemur upphæð styrkjanna sem renna til Íslands 62.000 norskum krónum sem samsvarar tæpum 900.000 íslenskum krónum.

Skógrækt fer nú vaxandi á Íslandi, bæði vegna aukinna framlaga hins opinbera en einnig vegna aukins áhuga almennings og fyrirtækja, innanlands og utan að útbreiða skóga heimsins á ný, binda kolefni og efla náttúru og umhverfi. Þetta þýðir að auka þarf framleiðslu skógarplantna. Þetta endurspeglast í þeim umsóknum sem bárust að þessu sinni um náms- og rannsóknarstyrki til SNS. Auk Íslendinganna fimm sem voru Norðmaður, Svíi og Lithái meðal styrkþega. Alls bárust fjórtán umsóknir um styrki að þessu sinni en til úthlutunar voru 100.000 norskar krónur.

Fjallað er um þetta á vef norrænu erfðavísindastofnunarinnar NordGen sem veitir þessa styrki í samvinnu við SNS. Þar er meðal annars rætt við Katrínu Ásgrímsdóttur, einn íslensku styrkþeganna. Katrín er framkvæmdastjóri Sólskóga á Akureyri, stærstu skógarplöntustöðvar á Íslandi. Tíundað er í frétt NordGen að efnahagshrunið 2008 hafi valdið bakslagi í skógrækt á Íslandi og kippt fótunum undan ræktunarstöðvum. Leiðin liggur nú upp á við og Sólskógar eru um þessar mundir með tólf starfsmenn í vinnu og myndarlega garðplöntusölu auk ræktunar á skógarplöntum og fleiru.

Í samtalinu við Katrínu kemur fram að undanfarin ár hafi Sólskógar framleitt um 1,5 milljónir skógarplantna á ári en nú stefni framleiðslan í fimm milljónir plantna á ári. Nú skipti miklu máli að geta brugðist hratt við aukinni eftirspurn. Hópur úr Sólskógum hyggi á námsferð til gróðrarstöðvarinnar í Biri í Noregi sem hafi einmitt aukið framleiðslu sína hratt að undanförnu. Styrkurinn er veittur til þeirrar ferðar.

Skógarplöntur binda koltvísýring

Sjálfvirkni er mikilvæg í skógarplöntuframleiðslu og hana þarf að innleiða í auknum mæli að mati Katrínar í Sólskógum. Myndin er tekin í einu af gróðurhúsum fyrirtækisins í Kjarnaskógi. Ljósmynd: Pétur HalldórssonStefna yfirvalda um aukna kolefnisbindingu er ein af ástæðunum fyrir því að nú eykst eftirspurn eftir skógarplöntum á Íslandi. Katrín segir að eins og sakir standa kaupi íslenska ríkið í stórum dráttum mest af því sem framleitt er í Sólskógum. „Við höfum einstaka möguleika til að binda kolefni með nýskógrækt,“ segir Katrín, „enda höfum við aðgang að svo miklu skóglausu landi á Íslandi. Við teljum að eftirspurnin haldi áfram að aukast en ef kaupandinn er aðallega einn og hinn sami er þetta viðkvæmur markaður og afleiðingar efnahagshrunsins eru okkur í fersku minni,“ bætir hún við í spjallinu við vef NordGen.

Námsferðin fulltrúa frá Sólskógum verður farin í september að því gefnu að áætlanir um veiruvarnir og bólusetningar standist. Vonast er til að afrakstur ferðarinnar skili sér í þekkingu sem nýtist til að auka sjálfvirkni í framleiðslunni hjá Sólskógum.

„Nú pökkum við öllum plöntum til dæmis í höndunum og þess vegna viljum við auka vélvæðingu og sjálfvirkni,“ segir Katrín. „Í samanburði við stöðvarnar í Skandinavíu erum við lítill framleiðandi og því erum við að leita leiða sem hæfa stærðinni okkar. Vonandi fáum við hugmyndir í ferðinni um hvernig við getum aukið framleiðni í störfunum okkar."

Áhrif sveppsjúkdóma

Vefur NordGen ræðir líka við eina sænska styrkhafann í ár. Hún heitir Rebecca Larson og er doktorsnemi við sænska landbúnaðarháskólann SLU með tengingu við trjáplöntuframleiðandann Svenska Skogsplantor. Stór hluti af verkefni hennar beinist að því að rannsaka áhrif sveppsjúkdóma hjá skógarplöntuframleiðendum. Hún hefur meðal annars sett upp grógildrur til að kanna hvernig sveppirnir dreifa sér. Þær upplýsingar verða svo keyrðar saman við veðurfarsgögn. Styrk fær hún til að ferðast til þriggja trjáplöntustöðva í Þýskalandi sem eru í samstarfi við Svenska Skogsplantor.

„Í Svíþjóð vinnum við með mikið magn af litlum plöntum en í Þýskalandi eru gjarnan með færri og stærri plöntur. Þjóðverjar eru meira með blandaðan skóg og þar stunda menn ekki rjóðurfellingu og jarðvinnslu með sama hætti og í Svíþjóð. Þar er því þörf fyrir stöndugar plöntur sem geta staðið sig í samkeppni við annan gróður,“ segir Rebecca Larsson í spjalli við vef NordGen.

Hún bendir á að skógarplönturnar séu ræktaðar mjög þétt í Svíþjóð. Slíkt auki hættuna á rakamyndun sem búi til kjöraðstæður fyrir sveppasýkingar. Loftslagsbreytingar geti orðið til þess að þessi hætta aukist í Skandinavíu og þar með vandamál sem tengjast sveppasjúkdómum.

„Ef loftslagið í Svíþjóð verður hlýrra má búast við því að sveppasjúkdómar berist hingað frá meginlandinu,“ segir Rebecca. „Ég hef áhuga á að afla mér þekkingar um hvaða sveppasjúkdóma sé að finna í Þýskalandi og hvernig brugðist er við þeim þar, bæði hvað varðar forvarnir og hvaða efni séu tiltæk til að beita gegn sveppasýkingum.“

Styrkþegar 2020

Í lok hvers árs auglýsir skógasvið NordGen námsstyrki í skógrækt í samvinnu við SNS. Þessir styrkir eru ætlaðir fagfólki í skógrækt og nemendum á Norðurlöndunum sem stunda nám í tengslum við fræmál skógarplantna, skógarplöntur, endurnýjun skóga eða trjákynbætur. Hámarksstyrkur eru 20.000 norskar krónur. Eftirfarandi hlutu styrki að þessu sinni en tilkynnt var um þá í lok apríl.

  • Bjorn Borgan, Noregi, 20.000 NOK
  • Einar Örn Jónsson, Íslandi, 18.000 NOK
  • Katrín Ásgrímsdóttir, Íslandi, 20.000 NOK
  • Rakel Jonsdottir, Íslandi, 10.000 NOK
  • Rebecca Larsson, Sverige, 8.000 NOK
  • Diana Marčiulynienė, Litauen, 10.000 NOK
  • Guðmundur Gíslason, Íslandi, 9.000 NOK
  • Álfsól Lind Benjamínsdóttir, Íslandi/Noregi, 5.000 NOK

 

Íslenskur texti: Pétur Halldórsson