Skógræktin hefur hrundið af stað verkefni sem kallast Skógarkolefni. Með því er ætlunin að koma á fót viðurkenndu ferli vottunar á bindingu kolefnis með nýskógrækt. Þar með verður í fyrsta sinn á Íslandi hægt að versla með vottaðar einingar kolefnis sem bundið er með nýskógrækt. Ein eining sam­svarar einu tonni af koltvísýringi. Stefnt er að því að fyrstu einingarnar verði skráðar á næsta ári.
Minningarsjóður Hjálmars R. Bárðarsonar og Else S. Bárðarson auglýsir rannsóknastyrki í landgræðslu og skógrækt, með sérstakri áherslu á vistfræði lúpínu og landgræðsluskógrækt með lúpínu.  Til úthlutunar verða sjö milljónir króna. Umsóknum skal skilað eigi síðar en 31. janúar 2018.
Flugbjörgunasveitin í Reykjavík sótti jólatré í Þjórsárdalsskóg fyrir jólatrjáasölu sína sem fram fer í húsakynnum sveitarinnar við Flugvallarveg í Reykjavík. Metaðsókn var að jólamarkaði Skógræktarinnar í Vaglaskógi um helgina og gestir sem komu í Haukadalsskóg til að sækja sér jólatré fóru líka glaðir heim. Um næstu helgi verður árlegi markaðurinn Jólakötturinn á Héraði og fólk getur komið og fellt eigið jólatré í Selskógi Skorradal og Haukadalsskógi.
Frá 1. desember er opið í starfstöð Skógræktarinnar á Vöglum í Vaglaskógi fyrir fólk sem vill koma og kaupa sér jólatré og greinar. Hinn árlegi jólamarkaður Skógræktarinnar í Vaglaskógi verður líka haldinn þar laugardaginn 7. desember frá kl. 13 til 17.
Fjölmenni sótti fund á Vopnafirði nýverið þar sem meðal annars var kynnt sú vinna sem nú fer fram að lands- og landshlutaáætlunum í skógrækt. Rædd voru ýmis tækifæri sem nú blasa við á sviði skógræktar, meðal annars skógrækt til kolefnisbindingar sem gæti leitt til þess að hentugt skógræktarland yrði eftirsóttara og verðmætara.