Norðlenski hópurinn naut leiðsagnar ráðgjafa RML, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar á sínu fyrsta n…
Norðlenski hópurinn naut leiðsagnar ráðgjafa RML, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar á sínu fyrsta námskeiði í Berjaja-hótelinu á Akureyri. Ljósmynd: Berglind Ósk Alfreðsdóttir

Garðyrkjubændur eru nú komnir í hóp þeirra bænda sem vinna að ýmsum betrumbótum í búrekstri sínum undir verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður. Bændur á fjórtán nýjum búum tóku nýverið fyrstu skref sín í verkefninu og segjast sjá í því mikil tækifæri. Meðal annars geti bæði sparast vinna og peningar með umbótum í þágu loftslagsins.

Fyrsta námskeið sunnlenska hópsins með ráðgjöfum fór fram í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Ljósmynd: Berglind Ósk AlfreðsdóttirLoftslagsvænn landbúnaður er samstarfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML), Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Verkefninu var hrundið af stað 2020 og í fyrstu atrennu var fimmtán sauðfjárbúum boðin þátttaka. Síðan hefur verkefnið stækkað mjög og búin eru nú orðin sextíu talsins. Fyrstu búin í nautgriparækt bættust við haustið 2021 og nú í haust voru í fyrsta sinn tekin inn garðyrkjubú. Þátttaka hvers bús tekur fjögur til fimm ár í senn.

Sjö búanna fjórtán sem bættust við nú á haustdögum eru á Suðurlandi og annað eins á Norðurlandi. Sunnlensku bændurnir tóku fyrstu skrefin í Gunnarsholti á Rangárvöllum með ráðgjöfum RML, Landgræðslunnar og Skógræktarinnar en þeir norðlensku hittu ráðgjafana á Akureyri þar sem skogur.is fékk að vera fluga á vegg dálitla stund.

Betri nýting á landi og öllum gæðum

Elínborg Erla Ásgeirsdóttir er meðal fyrstu grænmetisbændanna sem nú tileinka sér loftslagsvænan landbúnað. Hún býr í Breiðargerði í Skagafirði sem er í gamla Lýtingsstaðahreppnum. Grænmetisræktin þar er með lífræna vottun og segir Elínborg að kröfur lífrænnar ræktunar rími vel við þá hugsun sem boðuð sé með Loftslagsvænum landbúnaði. Hún telur grænmetisbændur eiga jafnmikið erindi inn í verkefnið og aðrir bændur. Þeir þurfi auðvitað ekki að fást við iðragerjun eins og sauðfjár- og kúabændur en Loftslagsvænn landbúnaður snúist mikið um ræktun nytjaplantna, landnýtingu, skjólbeltarækt og margt fleira. Hún nefnir líka hagræðingu í rekstrinum og betri nýtingu á landinu og öllum þeim gæðum sem bóndinn nýtir.

Betri uppskera í skjólinu

Varðandi skógræktar- og landgræðsluverkefni nefnir Elínborg að víða séu bændur með svæði á löndum sínum sem ekki séu í notkun og þar sé upplagt að huga að landgræðslu og skógrækt en líka skjólbeltarækt. Slík verkefni styðji vel við meginbúgreinarnar auk þess sem mikilvægt sé að nýta allt landið vel og skila því í betra ástandi til þeirra sem á eftir koma.

Breiðargerði er með skógræktarsamning sem ekki snertir grænmetisræktina beinlínis, segir Elínborg. Hins vegar muni aukin skjólbeltarækt örugglega skila sér í betri uppskeru. Hún hvetur aðra garðyrkjubændur til að feta sömu slóð enda hljóti að vera jákvætt, til dæmis gagnvart kaupendum afurðanna, að geta sýnt fram á að vel sé staðið að umhverfismálunum.

Nesti í traktorinn

Frá námskeiðinu á Akureyri 2. nóvember 2023. Ljósmynd: Pétur HalldórssonHjördísi Leifsdóttur á Brúnastöðum í Fljótum þótti verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður mjög athyglisvert. Meðal annars hafi ættingjar sem tekið hafi þátt í verkefninu mælt mjög með því. Þau Brúnastaðabændur hafi því talið sig heppin að vera dregin úr potti umsækjenda að þessu sinni. Tækifærin í verkefninu telur hún ekki síst liggja í því að bændurnir fái þarna aðstoð við að rýna í allan búreksturinn og leita að leiðum til að gera betur á öllum sviðum.

Á námskeiðinu var meðal annars bent á á að bændur hlypu gjarnan í vörn þegar minnst væri á umhverfismál og hefðu áhyggjur af því að umbótum í þeim efnum fylgdi bara meiri vinna og kostnaður. Hjördís segir að útkoman sé einmitt þveröfug. Með þeim betrumbótum sem gerðar séu sparist bæði vinna og peningar. Bændum sé eins og öðrum hollt að hugsa hlutina upp á nýtt og finna nýjar leiðir. Þar getur ótalmargt komið til sem kannski kemur sumum spánskt fyrir sjónir en getur skipt máli, svo sem að taka með sér nesti í traktorinn til að þurfa ekki alltaf að aka heim til að fá sér bita.

Sparnaður og betri nýting

Á Brúnastöðum er sauðfjárrækt, nautakjötsframleiðsla og geitfjárrækt, auk ferðaþjónustu og úrvinnslu afurða. Hjördís segir að verkefnið Loftslagsvænn landbúnaður snerti alla þessa þætti. Búið sé stórt og þar þurfi til dæmis mikið að heyja. Verkefnið stuðli ekki einungis að olíusparnaði heldur einnig betri nýtingu á bæði tilbúnum áburði og búfjáráburði.

Skógrækt hefur verið stunduð á Brúnastöðum í yfir tuttugu ár og sá hluti búrekstrarins verður auðvitað grandskoðaður eins og aðrir að sögn Hjördísar. Hlutverk skógarins hjá þeim sé aðallega að veita skjól, bæði fólki og skepnum, en ekki til að gefa timburnytjar. Gróðursettar hafa verið um 77.000 plöntur sem vaxið hafa vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður.

Aðeins rúmur helmingur umsækjenda um þátttöku í Loftslagsvænum landbúnaði fékk að vera með í þessari atrennu. Hjördís segist óska þess að sem flestir bændur fái tækifæri til að taka þátt í þessu frábæra verkefni. Elínborg og Hjördís segja frá í stuttu  myndbandi hér að neðan.

Texti: Pétur Halldórsson