Brynja Hrafnkelsdóttir ver þriðjudaginn 2. júní doktorsritgerð sína í skógfræði, með áherslu á skordýrafræði, við náttúru- og skógardeild Landbúnaðarháskóla Íslands. Doktorsritgerðin er á ensku með íslensku ágripi og er titill hennar „The interaction between native insect herbivores, introduced plant species and climate change in Iceland [Samspil á milli innlendra beitarskordýra, innfluttra plantna og loftslagsbreytinga á Íslandi]“.
Skógræktin gróðursetur í haust hálfri milljón fleiri birkiplöntur en áður hafði verið gert ráð fyrir. Jafnframt verður grisjun aukin í ungskógi á lögbýlum. Skógræktin sækir um framlag til að ráða sextíu sumarstarfsmenn og allt tengist þetta aðgerðum stjórnvalda vegna kórónufaraldursins. Í undirbúningi eru tilraunir með ræktun birkis í 400-600 metra hæð yfir sjó. Mikið er af hnignuðu landi í þessari hæð sem vert væri að græða upp með birki. Á láglendi er hins vegar óvíst hvernig birkinu ríður af með hlýnandi loftslagi.
Ingólfur Guðnason, námsbrautarstjóri garðyrkjuframleiðslu við LbhÍ, skrifar í Bændablaðið um hagnýtt og áhugavert nám sem er í boði við Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum í Ölfusi. Þetta er fjögurra anna bóklegt og verklegt nám í framleiðslu garð- og skógarplantna. Sækja má um þetta nám til 15. júní en það hefst í lok ágúst.
Endurmenntun Landbúnaðarháskóla Íslands auglýsir nú tvö námskeið í notkun og umhirðu keðjusaga, fellingartækni, öryggisatriðum og öðru sem nauðsynlegt er að kunna skil á við notkun keðjusaga í þéttbýli og úti í skógi. Fyrra námskeiðið verður á Hólum í Hjaltadal í júní og það síðara á Egilsstöðum og Hallormsstað í október. Námskeiðinu lýkur á einum og hálfum degi við trjáfellingu og grisjun í skógi.
Sérfræðingur í fjármálum fyrirtækja telur að mikil verðmætasköpun gæti falist í því fyrir íslenskt þjóðfélag ef skógarþekja á Íslandi yrði fimmfölduð á næstu 20 árum.  Slíkt gæti staðið undir atvinnusköpun og sjálfbærri byggðaþróun. Skapa megi snjalla atvinnugrein með fjölda starfa til framtíðar.