Ákveðið hefur verið að hin árlega Fagráðstefna skógræktar fari fram á Ísafirði 29.-30. mars 2023. Þema ráðstefnunnar verður tilkynnt síðar ásamt dagskrá og hagnýtum upplýsingum.
Um það leyti sem haustgróðursetningu var að ljúka hjá skógræktendum vítt og breitt um landið skrifaði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri grein sem birtist í Bændablaðinu 3. nóvember. Þar reifar hann vaxandi skógrækt á landinu, vaxandi þörf fyrir plöntur, verktaka og nýjar gróðrarstöðvar en einnig fræ og græðlingaefni af góðum uppruna.  Útlit sé fyrir að gróðursettar skógarplöntur nái sex milljónum á þessu ári.
Vélaverkfræðinemar við Háskólann í Reykjavík hafa hannað og smíðað nýtt tæki sem leysir tvö eldri tæki af hólmi við frævinnslu Skógræktarinnar úr könglum barrtrjáa. Vélin þurrkar bæði og klengir í sömu lotunni. Hún verður afhent Skógræktinni til notkunar í fræmiðstöðinni á Vöglum þegar prófunum og endanlegum frágangi er lokið.
Í tilefni af hálfrar aldar afmæli norræns rannsóknasamstarfs í skógvísindum verður haldin afmælisráðstefna 18. nóvember í Alnarp í Svíþjóð. Samstarfið kallast Norrænar skógrannsóknir á íslensku og Nordic Forest Research á ensku en gengur í daglegu tali undir skammstöfuninni SNS sem stendur fyrir SamNordisk Skogsforskning. Íslendingar gegna nú formennsku í SNS.
Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða býður til skógræktarfræðslu föstudaginn 4. nóvember þar sem Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, skógfræðingur og sviðstjóri skógarþjónustu Skógræktarinnar, fjallar um breytingar sem orðið hafa á skógum allt frá landnámi til dagsins í dag, upphaf skipulagðrar skógræktar á Íslandi og stofnanaumhverfi skógræktar. Einnig spáir hún í spilin um framtíðina.