Eitt af því sem fram kom á Loftslagsdegi Umhverfisstofnunar nýverið var að kolefnisbinding íslenskra skóga hefur sautjánfaldast frá því sem var fyrir þrjátíu árum. Sömuleiðis var bent á að líffjölbreytni á Íslandi væri ekki ógnað með skógrækt og formaður Loftslagsráðs benti á að leggja þyrfti áherslu á aukna þekkingu, aukinn skilning og reynslu. Við mannfólkið þyrftum að bjarga lífríkinu til að bjarga okkur sjálfum. Loftslagsbaráttan snýst ekki um það eitt að bjarga lífríkinu. Ekki þýðir að aðgreina eðlisþættina og lífríkisþættina.
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur látið hefja forathugun á sameiningu tveggja lykilstofnana í loftslagsmálum, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Með því að sameina fagþekkingu og krafta þessara stofnana verði til öflug stofnun sem sinni ráðgjöf við nýtingu lands og styðji við eflingu allra vistkerfa og landgæða til framtíðar.
Árangri tilrauna með ræktun þriggja trjátegunda á rýru landi við Keflavíkurflugvöll er lýst í nýju myndbandi sem Skógræktin hefur gefið út. Niðurstaða tilraunanna er meðal annars sú að vel sé hægt að rækta tré á þessu svæði. Sú næringarefnahjálp sem lúpína veitir skipti sköpum en nú er lúpínan tekin að hörfa fyrir grasi og öðrum tegundum. Þar sem áður var hrjóstrugt og rýrt land er nú gróskumikið gróðurlendi með allt að sjö metra háum trjám.
Sigrún Þöll Hauksdóttir Kjerúlf, kennari á Egilsstöðum, birti föstudaginn 22. apríl myndir af fallega blómstrandi tré á Facebook-síðunni Ræktaðu garðinn þinn – garðyrkjuráðgjöf. Myndir af blómstrandi trjám eru algengar á síðunni, en hér var um blæösp að ræða og er blómgun hennar hér á landi nánast óþekkt fyrirbæri.
Talsvert er um skemmd og brotin tré í Hallormsstaðaskógi eftir nýliðinn vetur. Skógræktarstjóri segir þó í spjalli við Austurfrétt að ekki hafi orðið stórtjón en eftir því sem trén hækka og stormar verða tíðari megi búast við meiri skemmdum af þessum toga.