Myndband Skógarnytja geymir ýmsan meginfróðleik um skóga og skógrækt. Skjámynd úr myndbandinu
Myndband Skógarnytja geymir ýmsan meginfróðleik um skóga og skógrækt. Skjámynd úr myndbandinu

Tugir trésmíðanema hafa komið í vettvangsnám hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í Heiðmörk undir merkjum verkefnisins Skógarnytja. Þetta samstarfsverkefni félagsins og Tækniskólans hefur nú sent frá sér myndband með ýmsum grunnfróðleik um skóga og skógrækt.

Skógræktarfélag Reykjavíkur leitast við að leggja sitt af mörkum til að auka þekkingu á þeirri auðlind sem er að byggjast upp í skógum landsins og styðja við að hún verði nýtt á sem bestan og umhverfisvænastan hátt. Á síðasta ári fékk félagið styrk úr Þróunarsjóði námsgagna til að útbúa námsgögn fyrir verkefnið Skógarnytjar. Meðal kennslugagnanna er þetta myndband sem ber titilinn Skógarnytjar – skógrækt, umhverfi og loftslagsmál.

Skógarnytjar, samstarfsverkefni Skógræktarfélags Reykjavíkur og Tækniskólans, hófst vorið 2021. Þeir trésmíðanemar sem komið hafa í vettvangsnám í Heiðmörk undir merkjum verkefnisins skipta nú tugum. Þessir trésmiðir framtíðarinnar hafa fengið fræðslu um skógrækt, skógarhögg og vinnslu timbursins auk fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, þróun skógarnytja á Íslandi, viðargæði, öryggismál og fleira, eins og lesa má nánar um á vefnum heidmork.is.

Ástæða er til að hrósa Skógræktarfélagi Reykjavíkur og Tækniskólanum fyrir þetta nytsama verkefni. Myndbandið geymir mikilvægan fróðleik sem öllum getur gagnast, ekki eingöngu trésmiðanemum. Textann gerðu Kári Gylfason og Gústaf Jarl Viðarsson og Kári er einnig þulur í myndbandinu.

Texti: Pétur Halldórsson