Hluti starfsfólks Skógræktarinnar við varðeld á bökkum Lagarfljóts að loknum daglöngum fundarhöldum.…
Hluti starfsfólks Skógræktarinnar við varðeld á bökkum Lagarfljóts að loknum daglöngum fundarhöldum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Nær allir starfsmenn Skógræktarinnar komu saman á starfsmannafundi sem fram fór á Hótel Hallormsstað 30. nóvember. Einungis fjórir starfsmenn af um sextíu áttu þess ekki kost að sitja fundinn. Þetta var síðasti starfsmannafundur stofnunarinnar undir þessu nafni en um áramót rennur hún ásamt Landgræðslunni inn í nýja stofnun, Land og skóg.

Fundurinn var með hefðbundnu sniði undir stjórn Þrastar Eysteinssonar skógræktarstjóra. Markmiðið var að venju bæði að rýna í viðfangsefni stofnunarinnar og að þjappa fólki saman, faglega og félagslega. Í hópavinnu voru tekin fyrir ákveðin mál sem unnið verður áfram með í mótun nýrrar stofnunar. Dagskipan hópanna var að rýna í tiltekna þætti í starfseminni og koma með ábendingar um hvað hefði mátt betur fara. Hópstjórar kynntu niðurstöður og þær verða síðan afhentar stjórnendum Lands og skógar sem efniviður í mótunarstarf hinnar nýju stofnunar.

Þá fluttu nokkrir afsérfræðingum stofnunarinnar erindi um ýmis efni. Aaron Zachary Shearer skógræktarráðgjafi talaði um þéttbýlisskógrækt og mikilvægi trjáa í þéttbýli, nokkuð sem ekki hefur verið sinnt með markvissum hætti hérlendis en er vaxandi í umræðunni á alþjóðasviðinu í takti við að sívaxandi hluti jarðarbúa býr nú í þéttbýli. Hrefna Jóhannesdóttir, sviðstjóri skógarþjónustu, og Björn Traustason, verkefnastjóri landupplýsinga, ræddu um framtíðarsýn í skógrækt, ekki síst út frá áætlanagerð, kortlagningu og miðlun gagna og upplýsinga. Tveir sérfræðingar á rannsóknasviði, Brynja Hrafnkelsdóttir og Helena Marta Stefánsdóttir, töluðu um framtíðarsýn í skógrækt út frá sjónarmiðum um líffjölbreytni og Valdimar Reynisson frá sjónarhóli skógræktenda. 

Að loknum fundi var haldið í ratleik um Hallormsstaðaskóg sem endaði við varðeld á bökkum Lagarfljóts. Um kvöldið var hátíðarkvöldverður, nokkurs konar árshátíð Skógræktarinnar, þar sem meðal annars var heiðraður Sæmundur Þorvaldsson, sem lét af störfum hjá stofnuninni fyrir nokkru og sömuleiðis kom Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, ávarpaði samkomuna og tók þátt í gleðinni. 

Texti og myndir: Pétur Halldórsson