Skógræktin á aðild að nýjum starfshópi um varnir gegn gróðureldum sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur sett á laggirnar. Hópurinn á að vinna að fyrirbyggjandi aðgerðum með forvörnum og fræðslu um gróðurelda. Reynslan af baráttu við gróðurelda, bæði hér á landi og erlendis, sýnir að til að ná árangri þurfi að samstilla alla sem koma að slökkvistarfi eða verða fyrir áhrifum af gróðureldum og beina þurfi forvörnum og fræðslu þvert á samfélagið.
Tíu manna hópur starfsmanna Skógræktarinnar gekk á Hvannadalshnúk, hæsta tind Íslands, á uppstigningardag. Gangan á tindinn tók níu tíma og þaðan var gott útsýni í björtu og hægu veðri. Alls tók ferðin 16 klukkustundir.
Skógræktin hefur undirritað samning við One Tree Planted um gróðursetningu 180.000 trjáplantna í hlíðum Spákonufells ofan þéttbýlisins á Skagaströnd. Verkefninu lýkur haustið 2024 og í kjölfarið vex upp skógur sem meðal annars nýtist íbúum Skagastrandar, nágrönnum þeirra og gestum til útivistar.
Á vef Vinnumálastofnunar eru nú auglýst 24 sumarstörf hjá Skógræktinni vítt og breitt um landið. Þetta eru almenn störf við skógrækt og skógarumhirðu en einnig er óskað eftir garðyrkjufræðingi eða verkamanni í gróðrarstöð, aðstoðarmanni við forritun og gagnagrunnsvinnslu, aðstoðarfólki við rannsóknir, meðal annars á viðargæðum, og aðstoðarmanni við skógmælingar og úttektir. Umsóknarfrestur er til 25. maí.
Öll meðferð elds utan dyra hefur nú verið bönnuð á Suður- og Vesturlandi og hafa Almannavarnir lýst yfir hættustigi vegna mögulegra gróðurelda. Bannsvæðið nær frá Eyjafjöllum að Breiðafirði. Skógræktin brýnir fyrir öllum eigendum og umsjónarfólki skóga að hafa gott eftirlit með skógunum og setja upp merkingar.