Votlendi og skógrækt í Reykjavík, sporin á þingvöllum og líffræðileg fjölbreytni er meðal viðfangsefna á ráðstefnu sem fram fer á degi íslensks landslagsarkitektúrs fimmtudaginn 28. apríl í ráðstefnusal Grósku að Bjargarstíg 1 í Reykjavík. Dagskráin stendur frá kl. 13 til 16.30 og er öllum opin en tilkynna þarf þátttöku fyrir fram.
Tilkynnt hefur verið að Skógardagurinn mikli sem fallið hefur niður undanfarin tvö ár vegna veirufaraldursins, verði haldinn laugardaginn 25. júní í Hallormsstaðaskógi.
Danska kirkjan Folkekirken hyggst draga úr kolefnisspori sínu um 70 prósent áður en áratugurinn er úti. Þetta á meðal annars að gera með því að breyta ræktarlandi á kirkjujörðum í villta náttúru og kirkjuskóga. Íslenska þjóðkirkjan leitar einnig leiða til að nýta kirkjujarðir í þágu loftslagsmála, meðal annars í samstarfi við Skógræktina.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir garðyrkjuverðlaunin 2022 á sumarhátíð Garðyrkjuskóla LbhÍ á Reykjum sem fram fer á morgun, sumardaginn fyrsta. Þá verður að venju opið hús í Garðyrkjuskólanum og ýmislegt að sjá og gera. Forsetinn afhendir garðyrkjuverðlaunin á sérstakri hátíðardagskrá milli kl. 14 og 15 og þar afhendir líka formaður Bændasamtakanna umhverfisverðlaun Hveragerðis.
Erfðanefnd landbúnaðarins auglýsir eftir umsóknum um styrki til verkefna sem hafa að markmiði að stuðla að varðveislu og sjálfbærri nýtingu innlendra erfðaauðlinda í landbúnaði. Umsóknarfrestur er til 28. apríl.