Ungsprotar á sitkabastarði á vori. Brumhlífarnar hanga enn á hliðarbrumunum. Ljósmynd: Pétur Halldór…
Ungsprotar á sitkabastarði á vori. Brumhlífarnar hanga enn á hliðarbrumunum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Picea x lutzii

Heitið sitkabastarður þykir ekki öllum hljóma vel enda hefur orðið bastarður fengið heldur neikvæða merkingu í málinu. Stundum hefur þessi blendingur sitkagrenis og hvítgrenis verið kallaður hvítsitkagreni en það hefur ekki fest í máli fólks. Við tökum því jákvæða pólinn í hæðina og einblínum á merkinguna blendingur eða kynblendingur sem er auðvitað sú upphaflega.

Kvenkynhirslur á sitkabastarði. Hvítu kornin eru frjókorn. Ljósmynd: Pétur HalldórssonGrenitegundir blandast gjarnan á mörkum útbreiðslusvæða sinna. Á norðanverðri vesturströnd Norður-Ameríku liggja saman útbreiðslusvæði sitkagrenis og hvítgrenis og skarast raunar líka við heimkynni blágrenis. Þetta eru svæði við strendur Bresku-Kólumbíu og Alaska. Þarna er uppruni sitkabastarðsins sem komið hefur í ljós að hefur ákveðna kosti umfram hreint sitkagreni á frostlendum svæðum hérlendis og sýnir jafnframt betri vöxt en hreint hvítgreni. Sitkagreni er aðlagað hafrænu loftslagi en hvítgreni er innlandstegund í heimkynnum sínum vestra.

Munurinn á þessum tveimur tegundum er í stórum dráttum sá að sitkagreni er stórvaxnari tegund, almennt grænleitari og með lengri og grófari nálar en hvítgreni. Sitkagreni getur hæst orðið yfir hundrað metra hátt. Hvítgreni verður yfirleitt ekki hærra en um 40 metrar og hefur mjóslegnari krónu, styttri nálar og ljósara eða bláleitara yfirbragð. Blendingurinn getur verið mjög mismunandi að útliti. Skógur með sitkabastarði er því nokkru óreglulegri yfir að líta en sitkagreniskógur eða hvítgreniskógur, bæði vegna vaxtarlagsins og fjölbreytni einstaklinganna. Blendingarnir geta verið allt frá því að vera nánast hreint hvítgreni yfir í nánast hreint sitkagreni. Sitkabastarður er á milli tegundanna í vaxtarhraða og endanlegri stærð og sýnir ekki blendingsþrótt.

Karlkynhirslur sitkabastarðs. Ljósmynd: Pétur HalldórssonFyrir utan örfá kvæmi sem bárust snemma til landsins er nánast allt það sem kallað er sitkagreni og hér hefur verið ræktað í raun meira eða minna blandað hvítgreni, m.ö.o. sitkabastarður. Að því leyti líkist sitkabastarður birkinu, sem er allt meira eða minna blandað fjalldrapa.

Sitkabastarður er stórt tré og hefur náð 30 metra hæð hérlendis. Engin ástæða er til að ætla að hann nái ekki 50 m hæð eða meira í fyllingu tímans. Eins og grenitrjáa er háttur vill hann vera einstofna og beinvaxinn. Eins og sitkagreni vex sitkabastarður hægt til að byrja með en það fer áreiðanlega mikið eftir aðstæðum og næringarástandi jarðvegs, áburðargjöf og því hversu snemma svepprótarsmit berst ungviðinu. Með tímanum herðir á vextinum og trén fara að vaxa hratt og halda því áfram lengi.

Tegundin hentar vel til ræktunar um allt land en velja verður henni rétt svæði og skilyrði. Sitkabastarður hefur meira frostþol að hausti en sitkagreni og er því betra val þar sem hætta er á frostum áður en trén hafa búið sig undir veturinn. Því ætti að forðast að gróðursetja sitkagreni í frostpolla. Sömuleiðis eru rýrir lyngmóar óheppilegir tegundinni. Hins vegar hefur sitkabastarður gott vind- og saltþol. Á sæmilega frjósömum svæðum í öllum landshlutum kemur hann því til greina í skógrækt, ekki síst neðarlega í hlíðum þar sem er góður jarðvegsraki.

Fjölbreytileiki sitkabastarðs sést vel í þessum reit sem gróðursett var í árið 1963. Ljósmynd: Pétur HalldórssonTil skamms tíma var gengið út frá því að á Norðurlandi skyldi einkum ræktaður sitkabastarður en hreint sitkagreni á Suðurlandi. Komið hefur í ljós að slík þumalputtaregla á ekki endilega vel við. Mikil hætta getur verið á frostum síðsumars eða snemma hausts á Suðurlandi þegar vindur stendur af norðri, himinn verður heiður og útgeislun mikil á nóttunni. Á slíkum svæðum væri sitkabastarður vænlegri til árangurs en sitkagreni. Eins getur verið skynsamlegra að velja hreint sitkagreni á bestu stöðunum norðanlands þar sem vænta má mikils vaxtar og góðrar timburuppskeru. Valið ætti því að fara meira eftir aðstæðum á hverjum stað í öllum landshlutum.

Sitkabastarður gefur hágæðatimbur ekki síður en hreint sitkagreni, léttan og góðan smíðavið sem jafnframt hefur mikinn styrk. Helsti skaðvaldurinn sem á hann herjar hérlendis er sitkalús en svo virðist sem minna beri á faröldrum þeirrar tegundar síðustu árin, ef til vill vegna þess að óvinum lúsarinnar hefur fjölgað, til dæmis með útbreiðslu glókolls á landinu, minnsta fugls Evrópu.

Alllengi hafa Íslendingar verið sjálfum sér nógir um grenifræ til plöntuframleiðslu. Lengi vel kom mest af fræinu af nokkuð hreinum sitkagrenitrjám á Tumastöðum. Árið 2022 var mjög gott fræár og þá var áherslan lögð á að ná miklu fræi af sitkabastarði af ýmsum kvæmum. Það tókst vel og nú eru umtalsverðar fræbirgðir til af vel spírandi fræi. Framtíð sitkabastarðs er því björt.

Texti: Pétur Halldórsson