Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, lýsir hlutverki forstöðumanns á fyrri degi tveggja …
Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, lýsir hlutverki forstöðumanns á fyrri degi tveggja daga starfsmannafundar sem fram fer á Hótel Selfossi. Ljósmynd: Hreinn Óskarsson

Starfsfólk Skógræktarinnar og Landgræðslunnar hittist á tveggja daga sameiginlegum starfsmannafundi sem fram fór á Selfossi. Á fyrri deginum var meðal annars kynnt hugmynd að merki fyrir hina nýju stofnun. Á fundinum tók starfsfólkið virkan þátt í mótun stofnunarinnar. Forstöðumaður Lands og skógar segir að fundurinn gefi góðan byrir fyrir áframhaldandi undirbúning hinnar nýju stofnunar.

Góður andi var strax á fyrri degi fundarins og mikill hugur í starfsfólkinu að búa til þessa nýju stofnun sem segja má að nú verði senn það sem hún var á árabilinu 1908 til 1914 þegar embætti skógræktarstjóra hafði með höndum bæði skógræktar- og sandgræðslumál. Unnið var í blönduðum vinnuhópum sem tóku fyrir ýmis viðfangsefni en einnig verður unnið í sérhæfðari hópum um afmarkaðri viðfangsefni hinnar nýju stofnunar. Ráðgjafar frá KPMG aðstoða við þessa vinnu.

Meðal viðburða fyrri daginn var hópefling undir stjórn Ragnhildar Vigfúsdóttur og sömuleiðis var kynnt frumútgáfa að merki nýrrar stofnunar sem af fyrstu viðbrögðum starfsfólks féll vel í geð. Eftir er að ljúka hönnun merkisins og í tengslum við það verða einnig unnin drög að heildarútliti Lands og skógar. Stofnunin getur því sýnt andlit sitt fyrsta janúar þegar hún tekur til starfa og leysir af hólmi Skógræktina og Landgræðsluna.

Ágúst Sigurðsson, forstöðumaður Lands og skógar, segist mjög ánægður með gríðarlega góða mætingu starfsfólk stofnananna tveggja á fundinn. Margvíslegt hafi verið gert á léttari nótum að kvöldi fyrri dagsins. Meðal annars hafi tónlistarfólk og annað hæfileikafólk úr hópnum farið á miklum kostum. Að morgni síðari dagsins var áfram unnið í vinnuhópum frá kl. níu til tólf. Meðal annars var tekið fyrir skipulag og starfshættir og að lokum hugað að gildum fyrir hina nýju stofnun. Þetta gekk áfram mjög vel að sögn Ágústs og það gefi góðan byr fyrir áframhaldandi undirbúning hinnar nýju stofnunar.

Fundurinn í morgun fór fram í stórum sal í hinum nýja miðbæ á Selfossi og endaði á hádegisverði í Mathöllinni þar áður en hver hélt heim í sína áttina.

Meðfylgjandi myndir tók Hreinn Óskarsson á fyrri degi starfsmannafundarins á Hótel Selfossi.

Frétt: Pétur Halldórsson