Brynjar Skúlason flytur erindi sitt á fundinum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Brynjar Skúlason flytur erindi sitt á fundinum. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Fulltrúar skógarplöntuframleiðenda hittust í liðinni viku á fundi með sérfræðingum frá Skógræktinni og sviðstjóra skógarþjónustu. Mikil ánægja var með fundinn og áhugi er á því að slíkt samtal fari fram reglulega, til dæmis einu sinni á ári.

Fundurinn var haldinn í Gömlu-Gróðrarstöðinni á Akureyri þar sem Akureyrarskrifstofa Skógræktarinnar er til húsa en einnig var haldið í skoðunarferð í gróðrarstöð Sólskóga í Kjarnaskógi.

Byrjað var á erindum og fyrstur sagði Brynjar Skúlason skógerfðafræðingur frá kynbótastarfi Skógræktarinnar á þeim trjátegundum sem mest eru notaðar í skógrækt hérlendis. Stöðugt væri unnið að því að afla betri efniviðar til skógræktar og meðal annars horft til þeirra breytinga sem vænta má í takti við hlýnun loftslags. Rakel J. Jónsdóttir, sérfræðingur í plöntugæðum, ræddi um eftirlit með gæðum skógarplantna og aðferðir við gæðaprófanir, þá umhverfisþætti sem helst hvetja frostþolsmyndun í skógarplöntum og hvað verður að hafa í huga áður en þeim er pakkað inn á frysta. Valgerður Jónsdóttir, verkefnastjóri endurnýjunarefnis, talaði því næst um viðmiðunarstaðla skógarplantna.

Að loknum erindunum tók Hrefna Jóhannesdóttir við, sviðstjóri skógarþjónustu hjá Skógræktinni, og efndi til umræðu um ýmis viðfangsefni. Þar gafst færi á gagnlegri umræðu þar sem skipst var á skoðunum og upplýsingum, hugmyndir ræddar og framleiðendur gátu borið upp mál sem á þeim brenna.

Mikil ánægja var með þennan fund, ekki síst meðal framleiðenda, sem gátu þarna borið saman bækur sínar. Stéttin er ekki stór og hver framleiðandi svolítið „einn í sínu horni“ í daglegu amstri. Á framleiðendum var að heyra að fundir sem þessi væru fagnaðarefni og nú er rætt um að halda slíka fundi reglulega, til dæmis einu sinni á ári.

Auk erinda og umræðna í Gömlu-Gróðrarstöðinni var haldið í skoðunarferð í gróðrarstöð Sólskóga í Kjarnaskógi þar sem mikið hefur verið byggt upp undanfarin misseri. Gróðurhúsum hefur fjölgað og önnur endurnýjuð eða endurbætt. Einnig hefur verið reist stór skemma sem bætir aðstöðu mjög og þar er meðal annars nýr róbóti sem margfaldar afköst og gæði við priklun skógarplantna á fyrsta stigi ræktunar. Þá hafa útiplön verið stækkuð að mun og meðal annars komið upp búnaði til að skyggja plöntur á útisvæði.

Texti: Pétur Halldórsson