Myndarleg stafafura dró athyglina að bás Skógræktarinnar á Vísindavökunni. Ljósmynd: Edda S. Oddsdót…
Myndarleg stafafura dró athyglina að bás Skógræktarinnar á Vísindavökunni. Ljósmynd: Edda S. Oddsdóttir

Ung stúlka úr Kópavogi vann gjafabréf fyrir jólatré úr Haukadalsskógi í getraun sem efnt var til í bás rannsóknasviðs Skógræktarinnar á Vísindavöku Rannís sem fram fór um helgina. Básinn var vel sóttur og vakti mikla lukku gesta að fá að mæla tré og telja árhringi í viðarsýnum.

Börn spreyta sig á getrauninni hjá Brynju Hrafnkelsdóttur sérfræðingi. Ljósmynd: Edda S. OddsdóttirVísindavaka Rannís fór fram í Laugardalshöllinni laugardaginn 30. september og var rannsóknasvið Skógræktarinnar með kynningarbás á fyrir gesti vökunnar. Stöðug aðsókn var í básinn þar sem  þar sem gestum bauðst að skoða í víðsjá árhringi trjáa og geitungabú. Þá gátu gestir líka tekið þátt í getraun þar sem spurningin var hversu mörg birkifræ væru í glerkrukku og hversu stór skógur yrði af þessum fræjum ef þau yrðu öll að trjám. Rúmlega 150 gestir  tóku þátt í getrauninni og var einn miði með réttum svörum dreginn úr pottinum. Ung stúlka í Kópavogi, Áróra Kristófersdóttir, vann gjafabréf upp á jólatré í Haukadalsskógi.

Einnig gátu gestir fræðst um skógmælingar, mælt hæð og þvermál á trjám og reiknað kolefnisbindingu skóga. Bindinguna mátti svo bera saman við kolefnislosun vegna heimilishalds og samgangna. Í því samhengi var Skógarkolefnisreiknir Skógræktarinnar kynntur og þar gátu gestir áætlað bindingu nýskógræktar víðsvegar um landið.

Loks gátu gestir tekið með sér matskeið af birkifræi úr bás Skógræktarinnar ásamt leiðbeiningum um söfnun og sáningu birkifræja.

Að uppsetningu skógarbássins stóðu nokkrir starfsmenn rannsóknasviðs Skógræktarinnar, þau Bjarki Þór Kjartansson, Brynja Hrafnkelsdóttir, Helena Marta Stefánsdóttir og Ólafur Eggertsson. Stóðu þau líka vaktina í básnum.

Skógræktin þakkar öllum þeim sem litu við hjá okkur á Vísindavökunni þetta árið. Sjáumst hress að ári.