Helga Ösp Jónsdóttir plöntusjúkdómafræðingur. Aðsend mynd
Helga Ösp Jónsdóttir plöntusjúkdómafræðingur. Aðsend mynd

Helga Ösp Jónsdóttir hefur verið ráðin plöntusjúkdómafræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Níu umsóknir bárust um starfið.

Helga Ösp lauk BS-gráðu í náttúru- og umhverfisfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 2006. Í lokaverkefni sínu þar rannsakaði hún mótstöðu asparblendinga gegn asparryði og dreifingu ryðs undir handleiðslu Halldórs Sverrissonar plöntusjúkdómafræðings. Hún stundaði nám í skógrækt og stjórnun náttúrusvæða við Høgskolen i Hedmark í Noregi og því næst meistaranám í landbúnaði með áherslu á plöntusjúkóma við Kaupmannahafnarháskóla. Þar vann hún meistaraverkefni í plöntusjúkdómafræði og fjallaði um áhrif asparryðs á kal í ösp. Meistararitgerð sína varði hún árið 2011 við mikið lof prófdómara. Ritgerðin ber heitið Effects of poplar leaf rust Melampsora larici-populina on frost resistance in poplars. Vinna við verkefnið var að mestu unnin hér á landi. Prófanir á frostskemmdum voru gerðar í Kalstofunni á Möðruvöllum í Hörgárdal. Leiðbeinendur við verkefnið voru Iben M. Thomsen við Kaupmannahafnarháskóla og Halldór Sverrisson sem þá starfaði bæði hjá Skógræktinni á Mógilsá og við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Með námi starfaði Helga Ösp sem aðstoðarmaður sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar en var síðan um þriggja ára skeið fagsviðstjóri hjá Matvælastofnun. Hún var umsjónarmaður Vinnuskólans hjá Akureyrarbæ frá 2015 til 2016 en tók þá við starfi sérfræðings á Umhverfisstofnun. Helga Ösp býr á Akureyri og hefur óskað eftir því að aðalstarfstöð hennar verði þar.

Ekki hefur verið starfandi plöntusjúkdómafræðingur hjá Skógræktinni um hríð frá því að Halldór Sverrisson lét af störfum fyrir aldurs sakir. Þörfin er þó brýn enda mikilvægt að fylgjast vel með heilsu plantna, stunda rannsóknir, safna gögnum og bregðast við nýjum ógnum sem upp koma. Með tilkomu nýrrar stofnunar um áramót, Lands og skógar, nýtast kraftar Helgu Aspar jafnframt við plöntusjúkdóma í landgræðsluplöntum.

Skógræktin býður Helgu Ösp Jónsdóttur velkomna til starfa og óskar henni til hamingju með stöðuna.

Texti: Pétur Halldórsson