Úr Haukadalsskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson
Úr Haukadalsskógi. Ljósmynd: Pétur Halldórsson

Umhverfis- og orku- og loftslagsráðherra segir sofandahátt gagnvart landnotkun og skógrækt hafa orðið til þess að Ísland þurfti á þessu ári að kaupa losunarheimildir. Ef loftslagsmarkmið Íslands fyrir 2030 nást ekki þarf að kaupa losunarheimildir fyrir milljarða á hverju ári.

Skjáskot af hluta umfjöllunar AusturfréttarÞetta kemur fram í umfjöllun Austurfréttar um þing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi sem haldið var í Fljótsdal í síðustu viku. Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni ráðherra að íslenska ríkið muni þurfa að greiða allt að tíu milljarða króna á ári eftir árið 2030, náist ekki markmið um að draga úr losun lofttegunda sem valda hækkandi meðalhita. Hann kennir sofandahætti gagnvart landnotkun og skógrækt um að Ísland skyldi þurfa að kaupa losunarheimildir til að uppfylla skuldbindingar sínar vegna Kyoto-sáttmálans frá 1997. Guðlaugur segir að eftir að Íslendingar hafi náð árangri á sviði landnotkunar og skógræktar á fyrsta tímabili Kyoto-áætlunarinnar hafi þeir misst sjónar á boltanum á öðru tímabilinu. Það hafi orðið til þess að ríkið keypti losunarheimildir fyrir 350 milljónir á þessu ári. Það var eingreiðsla til að mæta skuldbindingum Kyoto-sáttmálans frá árinu 1997.

Í umfjöllun Austurfréttar er farið yfir fleiri mál sem snerta aðgerðir til að ná loftslagsmarkmiðunum svo sem stuðning við bílaleigur til rafbílakaupa og minnkandi losun frá fiskiskipum en líka vaxandi losun frá fiskimjölsverksmiðjum vegna raforkuskorts. Ráðherra boði fjórða áfanga rammaáætlunar um virkjanakosti og þar verði gert ráð fyrir 525 MW viðbótarafli í vatnsaflsvirkjunum, 100 MW í jarðvarmavirkjunum og 810 MW frá vindorkuverum. „Við þurfum græna orku. Við björgum ekki heiminum með henni heldur okkur,“ er haft orðrétt eftir ráðherra í Austurfrétt.

Texti: Pétur Halldórsson