Skjámynd af hinni nýju virkni, „Insights“, á vef Loftslagsskrár
Skjámynd af hinni nýju virkni, „Insights“, á vef Loftslagsskrár

Með nýrri virkni á vef Loftslagsskrár Íslands má nú kynna sér með myndrænum hætti og texta þau kolefnisverkefni vítt og breitt um heiminn sem skráð hafa verið og komin eru á rekspöl. Þar á meðal er vaxandi fjöldi nýskógræktarverkefna á Íslandi.

Loftslagsskrá Íslands eða International Carbon Registry eins og skráin heitir á alþjóðamáli, starfar á alþjóðlegum vettvangi og hefur vakið athygli fyrir vel heppnað vefviðmót og góða framsetningu á bæði upplýsingum og þeim möguleikum sem felast í skráðum kolefnisverkefnum til alþjóðlegrar vottunar.

Nýjung á vefnum er það sem á ensku nefnist „Insights“ og gerir hverjum sem er kleift að skoða þau kolefnisverkefni sem skráð hafa verið í Loftslagsskrá og fylgjast með framgangi þeirra. Til að komast inn á þessar síður þarf að skrá sig sem notandi á vefnum carbonregistry.com og þannig fæst aðgangur að upplýsingum um verkefnin sem komin eru af stað. Auðvelt er að skoða verkefnin eftir löndum, til dæmis þau íslensku. Notendur bæta sjálfir upplýsingum við verkefni sín, hvort sem það eru ljósmyndir, myndskeið, texti eða annað.

Nú eru lýsingar á sjö íslenskum verkefnum komnar inn í skrána og allnokkur verkefni munu vera í undirbúningi sem bætast væntanlega við þessar upplýsingasíður á vef Loftslagsskrár á næstu vikum, mánuðum eða misserum.

Texti: Pétur Halldórsson