Landvernd efnir til hádegisfyrirlestrar um þróun göngustíga föstudaginn 3.október kl. 12.15 í stofu 101 í Lögbergi, Háskóla Íslands. Bob Aitken, skoskur landfræðingur og ráðgjafi í umhverfismálum á útivistarsvæðum, veltir upp leiðum til að takast á við stígamál á Íslandi með auknum ferðamannastraumi.
Ekki er enn hægt að meta hversu mikið losnar af koltvísýringi í eldsumbrotunum sem standa yfir norðan Vatnajökuls. Þar að auki er koltvísýringslosun frá eldstöðum aðeins örlítið brot af því sem losnar af mannavöldum í heiminum. Önnur lofttegund sem eldstöðin spúir er mun viðsjárverðari mönnum og náttúru. Það er brennisteinstvíoxíð, SO2, sem getur í versta falli haft þau áhrif að kólni í veðri. Ekki er þó hætta á því nema í meiri háttar sprengigosum. Skógrækt getur dregið verulega úr umhverfisáhrifum vegna eldgosa.
Finnskir skógræktarmenn heimsóttu í gær Stálpastaðaskóg í Skorradal og nutu leiðsagnar Valdimars Reynissonar skógarvarðar um skóginn. Finnarnir gerðu góðan róm að skóginum. Einn úr hópnum gat gefið góð ráð um vinnubrögð við grisjun með grisjunarvél sem einmitt er þar að störfum þessa dagana.
Guðmundur Sveinsson frá Feðgum í Meðallandi gerði djarflega tilraun til skógræktar í ungu hrauni þegar hann hóf skógrækt á litlum reit í Eldhrauni árið 1978. Tilraunin tókst ljómandi vel. Trén sjá nú um sig sjálf og mikill munur að líta yfir reitinn frá því sem var fyrir 15 árum.
Á síðustu árum hefur almenningur safnað birkifræi fyrir Hekluskóga og lagt drjúgan skerf að því mikilvæga verkefni. Þótt heldur minna sé af fræi þetta árið en undanfarin haust má víða finna allmörg tré með fræi. Endurvinnslan hf. aðstoðar verkefnið með því að taka á móti fræi frá almenningi á móttökustöðvum í Reykjavík og senda til Hekluskóga. Ræktun birkiskóga í grennd við eldfjöll minnkar hættuna á gróður- og jarðvegseyðingu í kjölfar öskugosa.