Skógræktarsvæði í hlíðinni ofan við byggðina á Patreksfirði þurfti að víkja fyrir snjóflóðavarnargörðum sem nú er verið að leggja lokahönd á. Myndarlegir bolir úr skógræktinni verða notaðir á staðnum því húsgögn í útikennslustofu verða gerð af viði úr skóginum sem hvarf.
Á ráðstefnu NordGen Forest sem haldin var í Noregi í september var mikið rætt um hvernig skógræktendur á Norðurlöndunum gætu búið sig undir hlýnandi veðurfar og hvernig nýta mætti loftslagslíkön til að undirbúa skógræktina á komandi árum og áratugum. Fimmtíu sérfræðingar hvaðanæva af Norðurlöndunum sóttu ráðstefnuna.
Þurrir og berir melar í landi Háls í Fnjóskadal hafa tekið stakkaskiptum á fáum árum og eru nú óðum að hverfa í skóg. Um 130 þúsund plöntur hafa verið gróðursettar, að mestu leyti í sjálfboðavinnu.
Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið fluttust formlega í nýtt húsnæði í gær, Halldórsfjós svokallað á Hvanneyri. Timbur í innréttingar var sótt í gjöfula skóga Skorradals. Afgreiðsluborð, sýningarborð og ræðupúlt er meðal þess sem smíðað var úr Skorradalstimbri.
Stærsta skógvísindaráðstefna heims verður haldin í borginni Salt Lake City í Utah dagana 5.-11. október. Þar hittast meira en 3.500 vísindamenn og sérfræðingar. Þetta er tuttugasta og fjórða heimsráðstefna IUFRO, alþjóðlegs sambands rannsóknarstofnana í skógvísindum. Á ráðstefnunni verður rætt um mikilvægi skóga sem tækis til að bregðast við ýmsum vaxandi vandamálum sem samfélag manna á jörðinni stendur nú frammi fyrir.