Trjábolir nýttir í útikennslustofu

Skógræktarsvæði í hlíðinni ofan við byggðina á Patreksfirði þurfti að víkja fyrir snjóflóðavarnargörðum sem nú er verið að leggja lokahönd á. Þarna hafði áhugafólk lagt alúð við skógræktina og þótti að vonum sárt að horfa á eftir trjánum. En myndarlegir bolir úr skógræktinni verða notaðir í bekki og fleira á útivistarsvæði sem nú er unnið að á varnargörðunum. Þar verður meðal annars útikennslustofa og húsgögnin þar gerð af viði úr skóginum sem hvarf. Stöð 2 fjallaði um þetta í frétt sem er á þessa leið:


Nýr snjóflóðavarnargarður á Patreksfirði verður nýttur sem útikennslustofa fyrir nemendur grunnskólans. Húsgögnin verða smíðuð úr skóginum sem þurfti að víkja fyrir garðinum.

Eftir tveggja ára vinnu Verktakafélagsins Glaums er ofanflóðagarðurinn að verða tilbúinn, - um þrjúhundruð metra langur og allt að tíu metra hár, - og teygir sig yfir helstu opinberu byggingar Patreksfjarðar, eins og grunnskólann, íþróttamiðstöðina, kirkjuna og sjúkrahúsið.

Auk þess að verja íbúana fyrir snjóflóðum er ætlunin að þetta 300 milljóna króna mannvirki nýtist á ýmsan annan hátt, eins og í þágu barnanna í skólanum. Guðmundur Hrafn Arngrímsson, grjóthleðslumeistari og landslagsarkitekt, sýndi í fréttum Stöðvar 2 hvar verið væri að gera grjóthleðslur fyrir útikennslustofu Patreksskóla. Víðar í varnargarðinum á að hlaða upp veggi og rækta tré til að skapa útivistarsvæði fyrir bæjarbúa. 

Snjóflóðavarnargarðar yfir íslenskum byggðum eru yfirleitt risamannvirki og þykja lýti á landinu. Þeir eru heilmikið sár og kannski má segja að aðgerðir sem þessar séu einskonar plástur. 

„Þannig að menn vilja tóna þetta svona niður með því að rækta þetta upp, gera göngustíga, hleðslur og áningarstaði, borð og bekki,” segir Guðmundur Hrafn. 

Þá hafa íbúar oft þurft að sjá á bak fögru útivistarsvæði. Patreksfirðingar þurftu til dæmis að fórna skógrækt.

Guðmundur Hrafn segir að það hafi verið tilfinningamál fyrir marga að hægt yrði að nýta viðinn úr skóginum. Sextíu trjábolir séu því að leið suður í Skorradal þar sem þeir verða sagaðir niður og smíðaðir úr þeim borð og bekkir fyrir þetta nýja útivistarsvæði Patreksfirðinga.

Smellið hér til að horfa á fréttina