Horft úr Vaðlaheiði yfir Hálsmela til austurs. Bærinn Háls fyrir miðri mynd og Fnjóská neðst til vin…
Horft úr Vaðlaheiði yfir Hálsmela til austurs. Bærinn Háls fyrir miðri mynd og Fnjóská neðst til vinstri. Hægra megin teygir Vaglaskógur sig norður á melana.

Mikil breyting á örfáum árum

Hálsmelar kallast melarnir norðan Vaglaskógar í Fnjóskadal á hálsinum sem skilur dalinn og Ljósavatnsskarð. Þar voru miklar andstæður örsnauðra mela og gróskumikils birkiskógarins þegar Hálsmelar voru friðaðir 1989. Árið eftir var hafin gróðursetning í melana undir merkjum landgræðsluskógaverkefnisins. Að verkinu stóð Skógræktarfélag Fnjóskdæla.

Nú hafa verið gróðursettar um 130 þúsund skógarplöntur á Hálsmelum, mest lerki. Fólk úr Fnjóskadal og nágrenni hefur unnið verkið í sjálfboðavinnu. Hin seinni ár hefur lítils háttar verið klippt af tvítoppum og unnið að annarri umhirðu. Árangurinn hefur verið mjög góður og er mikil breyting á svæðinu á örfáum árum.

Hálsmelar eru lýsandi dæmi um hve fljótt má ná góðum árangri með skógrækt á mjög snauðu landi, sérstaklega á láglendi. Nú er kominn skógur þar sem var auðnin ein fyrir aldarfjórðungi. Land sem áður gaf ekkert af sér myndar nú verðmætan skóg sem senn fer að gefa arð. Skjólið, bætta ásýnd landsins, auðugra vistkerfi, aukið fuglalíf og fleira sem jafnan fylgir skógrækt fáum við í kaupbæti.

Hér fyrir neðan eru þrjár myndir til viðbótar. Sú í miðjunni er glæný og sýnir vel skóginn á melunum því lerkið hefur klæðst óvenjufallegum haustlit þetta árið og sést því greinilega hvar það vex þótt úr fjarska sé. Hin myndin er tekin í návígi af nokkurra ára gömlu lerki að sumarlagi.

Lerkið á Hálsmelum 7. október 2014. Blámóða úr gosinu í Holuhrauni slærbrslikju á Ljósavatnsskarðið í baksýn. Mynd: Pétur Halldórsson

Þessi mynd er tekin neðar í austurhlíðum Vaðlaheiðar og sýnir líka vel gult lerkið á Hálsmelunum. Sólin hefur brotist hér fram. Vegna hlýindanna í haust er barrið óskemmt af frosti og vindi og haustlitur lerkisins því óvenjujafn og fallegur. Mynd: Pétur Halldórsson. 

Grænt og fallegt lerki ræktað á mjög rýrum mel á Hálsmelum í Fnjóskadal. Mynd: Þröstur Eysteinsson

Texti: Sigurður Skúlason og Pétur Halldórsson
Myndir: Sigurður Skúlason, Pétur Halldórsson og Þröstur Eysteinsson