Yfir 3.500 vísindamenn og sérfræðingar hittast í Salt Lake City

Fréttatilkynning frá IUFRO 2. október 2014 (Salt Lake City/Vínarborg):

Stærsta skógvísindaráðstefna heims verður haldin í borginni Salt Lake City í Utah dagana 5.-11. október. Þar hittast meira en 3.500 vísindamenn og sérfræðingar. Þetta er tuttugasta og fjórða heimsráðstefna IUFRO, alþjóðlegs sambands rannsóknarstofnana í skógvísindum.

Skógar og tré eru mikilvæg tæki til að bregðast við ýmsum vaxandi vandamálum sem samfélag fólks á jörðinni stendur nú frammi fyrir. Þar má nefna þörfina fyrir endurnýjanlegar auðlindir, loftslagsbreytingar, vatnsskort og fátækt. Á 24. heimsráðstefnu IUFRO er yfirskriftin „Sustaining Forests, Sustaining People: the Role of Research“. Þessu mætti á íslensku snúa sem svo: „Ræktun skóga, ræktun lýðs: hlutverk rannsókna“. Markmið ráðstefnunnar er að vekja athygli á þeirri vísindalegu þekkingu sem við búum yfir í skógfræðum um þessar mundir og hvernig vísindafólk á þessu sviði fæst við ýmis úrlausnarefni og tækifæri sem snerta sjálfbæra þróun.

Haukadalsskógur

Ráðstefnan er stærsta vísindaráðstefna um skógarmál sem haldin er í heiminum og búist er við að hana sitji yfir 3.500 manns hvaðanæva úr heiminum. Ráðstefnan  hefst á sunnudag, 5. október, í Salt Lake City í Utahríki í Bandaríkjunum og stendur fram á laugardaginn ellefta. Hið alþjóðlega samband rannsóknarstofnana í skógvísindum, IUFRO, skipuleggur ráðstefnuna í boði bandarísku ríkisskógræktarinnar, U.S. Forest Service, í samvinnu við þrenn samtök á sviði skógvísinda vestan hafs, NAUFRP sem er landsamband bandarískra skógvísindastofnana (National Association of University Forest Resources Programs), SAF sem eru samtök skógfræðinga (Society of American Foresters) og kanadísku skógfræðistofnunarinnar CIF/IFC (Canadian Institute of Forestry/Institut Forestier du Canada).

„Skógar og tré gegna mjög mikilvægu hlutverki í sjálfbærri þróun mannlegra samfélaga um allan heim,“ segir John Parotta sem starfar hjá IUFRO og er formaður vísindanefndar ráðstefnunnar. 24. heimsráðstefna IUFRO fer nú fram þegar eitt ár er þangað til bókun Sameinuðu þjóðanna um þróunina eftir árið 2015 verður lögð fram og markmiðin um sjálfbæra þróun koma til framkvæmda. „Skógar og ábyrg nýting þeirra skiptir sköpum ef þessi markmið eiga að nást,“ segir Parotta. „Í því starfi er þörf á bestu fáanlegu þekkingu og traustum vísindalegum gögnum um skóga.“ Á ráðstefnunni verða haldin yfir 1.200 erindi og næstum annað eins af veggspjöldum verður kynnt þessa viku sem ráðstefnan stendur. Fimm allsherjarfundir verða haldnir, 19 smærri fundir og yfir 170 tækni- og veggspjaldakynningar.

„Við þurfum að nýta vísindaleg gögn frá ýmsum sviðum vísindanna til að varða veginn í nýtingu skóga svo þeir geti gert það gagn sem við ætlumst til og gefið okkur þau fjölbreyttu hráefni sem við viljum fá út úr þeim,“ segir Niels Elers Koch, forseti IUFRO. Í því samhengi nefnir hann lífeðlisfræði, samfélagsfræði, hagfræði og stjórnmálafræði. „Mikilvægasta hlutverk IUFRO er að tengja fólk saman úr ólíkum vísindagreinum og frá ólíkum svæðum á jörðinni til að þekkingin dreifist milli fólks og fólk læri hvert af öðru,“ bætir Koch við. IUFRO er einu alþjóðlegu samtökin sem starfa á sviði skógvísinda og skyldra fræða.

Ný ritröð: IUFRO Research Letters

Þau sjö viðfangsefni sem fjallað er um á ráðstefnunni fela í sér þær vísindalegu áherslur sem IUFRO hefur sett sér í þágu skóga og fólks um allan heim. Viðfangsefnin eru: Skógar fyrir fólk, líffjölbreytni skóga og vistkerfisþjónusta, skógar og loftslagsbreytingar, skógar og hringrásir vatns, lífmassi úr skógum og lífeldsneyti, skógar og skógarafurðir fyrir grænni framtíð og skógarheilsa í hverfulum heimi.

Upplýsingar um hvert og eitt þessara viðfangsefna má finna í nýrri útgáfu- eða ritröð frá IUFRO sem nefnist „Research Letters“ og kemur út á ráðstefnunni. Su See Lee, stjórnarformaður IUFRO, segir að í þessari ritröð séu birtar helstu vísindaniðurstöður níu vinnuhópa IUFRO sem hafa starfað frá árinu 2011 og fjallað um nokkur mikilvægustu viðfangsefnin sem snerta skóga og skyld efni, svo sem skóga og loftslagsbreytingar, skóga og lýðheilsu eða skóga og lífeldsneyti. „Þessi viðfangsefni eru ofarlega á baugi í stjórnmálunum og skipta miklu máli þegar rætt er um sjálfbæra þróun,“ segir Su See. Hún vonast til að ritröðin nýja leiði til betri skilnings og innsýnar í þessi málefni öllum þeim til gagns sem áhuga hafa á framtíðarþróun bæði skóga og mannlegra samfélaga.

Nýr forseti IUFRO útnefndur

Meðan á ráðstefnunni í Utah stendur útnefnir alþjóðaráð IUFRO nýjan forseta sem tekur við af Niels Elers Koch eftir fjögurra ára forsetatíð hans.

Sömuleiðis verður mörkuð stefna IUFRO fyrir tímabilið 2015-2019. Stefna sú mótar starf samtakanna allt til 25. heimsþingsins árið 2019.

IUFRO Research Letters – Málefni


 • Um skóga fyrir fólk
  Skógar gefa af sér margvíslegar vörur og veita fjölþætta þjónustu. Um 1,6 milljarðar manna um allan heim reiða sig á þessa þjónustu til lífsviðurværis. Þéttbýlismyndun, alheimsvæðing og breytt neyslumynstur eru þættir sem hafa áhrif á skógana. Mikilvægt er fyrir skógvísindin að skilja samfélagslegar ástæður þessara breytinga og áhrif þeirra á skóga og fólk.
 • Um skóga og lýðheilsu
  Margvíslegt gagn og afurðir er að hafa af skógarvistkerfum svo sem mat, krydd, lyfjaefni og fæðubótarefni en skógarnir eru líka vettvangur útivistar og skemmtunar að ónefndum menningarlegum og andlegum verðmætum sem hafa jákvæð áhrif á velferð fólks. En samspil skóga og heilsu mannfólksins er flókið.
 • Um skóga og loftslagsbreytingar
  Athafnir mannanna ýta undir loftslagsbreytingar. Það hefur áhrif á starfsemi skógarvistkerfanna, gagnsemi þeirra og það sem verður til í þeim af afurðum. En skógar eru líka hluti af lausn vandans því í þeim má binda kolefni, þeir gefa okkur endurnýjanlegt hráefni sem komið getur í stað óendurnýjanlegs hráefnis, meðal annars orku.
 • Um menntun í skógvísindum
  Menntun skiptir sköpum til að tryggja góða umhirðu og nýtingu skógarauðlindarinnar. Reynsla kynslóðanna er líka mikilvægur þáttur í skógfræðimenntuninni. Í ljósi breyttra krafna samfélagsins, svo sem vaxandi spurnar eftir þjónustu vistkerfa og sjálfbærrar nýtingar auðlinda, er æ mikilvægara að fólk eigi kost á fjölbreyttari námsmöguleikum. 
 • Um auðlindir fyrir komandi kynslóðir
  Auk þess að vera uppspretta orku hefur viður lengi verið nýttur til smíða og pappírsgerðar. Ýmiss konar trjáhluta eða efni úr trjáviði má nýta með mjög margvíslegum hætti og þetta er nú gert í vaxandi mæli í iðnaði. Sem dæmi má nefna notkun viðar í framleiðslu á vefnaðarvöru og fatnaði. Sífellt koma fram nýjungar á sjónarsviðið svo sem eins og nanókristallað beðmi (
  sellulósi) og skyld fyrirbrigði.
 • Um líffjölbreytni og vistkerfisþjónustu
  Líffjölbreytni er nokkuð sem segir til um hversu vel skógur getur veitt það sem kallað er vistkerfisþjónusta svo sem að byggja upp jarðveg, framleiða hráefni í mat, vera uppspretta vatns eða vinna gegn gróður- og jarðvegseyðingu. Skógareyðing og hnignun vistkerfa er ein meginástæðan fyrir því að líffjölbreytni minnkar. Aðrar ógnir í þeim efnum eru loftslagsbreytingar og sjúkdómar. Sjálfbærni skóganna stafar nú þegar ógn af þessum þáttum og þeim ógnum þarf að mæta í auknum mæli á komandi árum.
 • Um skóga og vatn
  Meira en einn af hverjum sex jarðarbúum býr ekki við hreint drykkjarvatn og um 80 prósent jarðarbúa búa á svæðum þar sem vatnsauðlindin er ótrygg. Í þessu gegnir vatnsbúskapur skóganna mikilvægu hlutverki. Skógar tempra framrás vatns og stuðla að því að til staðar sé vatn til heimilisnota og til nota í landbúnaði og iðnaði. Verndun skóga er því lykill að því að sjá fólki fyrir hreinu vatni.
 • Um lífeldsneyti úr skógum
  Náttúrlegir skógar, ræktaðir skógar og trjáplantekrur eru mikilvægustu uppsprettur okkar af endurnýjanlegum hráefnum. Gert er ráð fyrir því að skógrækt og skógarnytjar aukist mjög samhliða því sem grænt hagkerfi þróast í löndum heimsins. Mikilvægt er að stuðla að því að sú takmarkaða auðlind sem lífmassi jarðarinnar er sé nýtt með skilvirkari hætti og að sem minnst fari til spillis.
 • Alþjóðleg stjórnsýsla með skóga
  Tilraunir til að ná tökum á skógareyðingu um allan heim og hnignun skógarvistkerfa hafa leitt af sér ýmis verkefni. Nú er einkum lögð áhersla á að hrinda af stað verkefnum á tveimur tiltölulega nýjum sviðum, annars vegar sem snertir lögmæti og hins vegar að draga úr losun vegna skógareyðingar og hnignunar skógarvistkerfa (REDD/REDD+). Þar er ein meginspurningin sú hvort þetta starf getur leitt til þess að nýjar aðferðir finnist til að bæta ástand skóga og afkomufólks.


IUFRO Research Letters: http://www.iufro.org/publications/iufro-research-letters/

24. heimsráðstefna IUFRO 2014
5.-11. október 2014, Salt Lake City, Utah, Bandaríkjunum
Upplýsingar um dagskrá: http://iufro2014.com/
Fréttir og fjölmiðlar: http://iufro2014.com/news/

Fjölmiðlafulltrúi:
Gerda Wolfrum, International Union of Forest Research Organizations (IUFRO),
wolfrum(at)iufro.org

Texti/þýðing: Pétur Halldórsson