Við hleypum nú af stað nýrri myndasyrpu hér á vef Skógræktar ríkisins og köllum hana „Fyrr og nú“. Fyrsta myndaparið sendi Hreinn Óskarsson, skógarvörður á Suðurlandi. Myndirnar eru teknar í Langadal á Þórsmörk og sýna glögglega hversu mjög birkið hefur sótt fram frá því Mörkin var friðuð fyrir beit fyrir um 80 árum. Óskað er eftir myndum af þessum toga af skóglendi vítt og breitt um landið þar sem breytingar á landi með skógarækt sjást vel.
Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var í Bandaríkjunum er áætlað að trjágróður bjargi árlega yfir 850 manns frá dauða þar í landi með því að hreinsa andrúmsloftið, einkum í þéttbýli. Með sama hætti eru trén talin koma í veg fyrir um 670 þúsund tilfelli bráðaeinkenna í öndunarvegi. Efnahagslegur sparnaður af þessu er metinn á um 850 milljarða íslenskra króna.
Skógræktarfélag Íslands hefur útnefnt virðulegt og rótgróið evrópulerki (Larix decidua) tré ársins 2014. Tréð stendur við Arnarholt í Stafholtstungum og verður sæmt titlinum við hátíðlega athöfn sunnudaginn 14. september kl. 14.
Styrkjakerfið í íslenskum landbúnaði ýtir undir ofbeit og tilheyrandi gróður- og jarðvegseyðingu, að mati höfunda nýrrar skýrslu OECD um umhverfismál á Íslandi. Íslensk stjórnvöld eru gagnrýnd mjög fyrir lítið eftirlit og að rofskýrslunni svokölluðu frá 1997 skuli ekki hafa verið fylgt eftir.
Ný tækni sem vísindamenn eru að þróa við Wake Forest háskólann í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum gæti gagnast til að hamla gegn geigvænlegum afleiðingum skógareyðingar og námuvinnslu í stærsta regnskógi heims, Amason-frumskóginum. Með því að þróa aðferðir við vinnslu lífkola úr bambus og koma á nýjum búskaparháttum er talið að vinna megi gegn skógareyðingu, auka tekjur bænda og binda kolefni.