Lundur Dalbæjarbóndans í Eldhrauni haustið 1999.
Lundur Dalbæjarbóndans í Eldhrauni haustið 1999.

Djarfleg tilraun til skógræktar í ungu hrauni

Eldhraun rann úr Lakagígum í Skaftáreldum 1783-1784 og er annað af tveimur stærstu hraunum sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma. Aðeins hraunrennslið úr Eldgjárgosinu 934 er talið vera sambærilegt að magni.

Í svo ungu hrauni er varla hægt að búast við mikilli gróðurþekju enda er grámosinn áberandi. Austarlega í hrauninu er samt sem áður lítil gróðurvin sem fæstir vegfarendur tóku eftir lengi vel en nú skyggir hraunið ekki lengur á. Þarna gróðursetti Guðmundur Sveinsson trén á meðfylgjandi myndum sem teknar eru með 15 ára millibili, sú fyrri haustið 1999 og sú síðari nú í sumar.

Guðmundur, kallaður Mummi, var fæddur í Vík í Mýrdal árið 1907 en ólst upp á bænum Feðgum í Meðallandi. Hann starfaði lengi sem leigubílstjóri í Reykjavík og var einn þeirra sem áttu því láni að fagna að aka meistara Kjarval um landið. Kynni þeirra urðu til þess meðal annars að Kjarval málaði mynd og kallaði Krítík. Myndin er máluð 1946 og mun Guðmundur vera fyrirmyndin. Guðmundur hafði yndi af ferðalögum og útivist og var til dæmis fyrsti bílstjórinn sem braust í Landmannalaugar á bíl sumarið 1946. Síðar sama sumar komst hann ásamt öðrum á bílum frá Landmannalaugum niður í Skaftártungur.

Um sjötugt vildi hann reyna fyrir sér með skógrækt í miðju Eldhrauni. Þar hafði hann lengi haft augastað á laut þeirri sem trén á myndinni vaxa í. Þau fyrstu gróðursetti hann í lok maí 1978. Plönturnar fékk hann hjá Kjartani bróður sínum og naut líka aðstoðar við verkið hjá bræðrum sínum, Páli og Sigurði, ásamt börnum Sigurðar sem var bóndi á Ytra-Hrauni í Landbroti. Við ræktunina var notað ríkulega af sauðataði en þarna er eins og gefur að skilja ekki mikill jarðvegur. Reiturinn var girtur og sett niður sitkagreni, stafafura, lerki og birki.

Frá árinu 1994 hefur reiturinn verið í umsjá Skógræktarfélagsins Markar og hefur hann stækkað nokkuð frá tíð Guðmundar. Gamla girðingin var fjarlægð og allnokkuð hefur verið gróðursett í viðbót. Trén eru þó farin að sjá um sig sjálf og víða má sjá sáðplöntur, sérstaklega af stafafurunni en líka af lerki. Væntanlega er birkið líka duglegt að breiðast út frá þessum stað. Sumarið 2011 gróðursettu afkomendur foreldra Guðmundar trjáplöntur í reitinn í tengslum við ættarmót sem þá var haldið.

Afi Guðmundar Sveinssonar bjó í Dalbæ í Landbroti og Guðmundur kallaði reitinn Lund Dalbæjarbóndans honum til heiðurs. Nafnið festist þó ekki við reitinn í munni almennings því oftast er talað um Eldhraunsreitinn. Óhætt er að segja að djarfleg tilraun Guðmundar til skógræktar í ungu hrauni hafi tekist ljómandi vel.

Texti: Pétur Halldórsson
Heimild: Morgunblaðið/Sigríður Hjartar
Myndir: Edda S. Oddsdóttir