Birki er landnemaplanta. Hér rótar hún sig í svörtum vikursandinum í grennd við Heklu.
Birki er landnemaplanta. Hér rótar hún sig í svörtum vikursandinum í grennd við Heklu.

Safni nú hver sem betur getur

Á síðustu árum hefur almenningur safnað birkifræi fyrir Hekluskóga og lagt drjúgan skerf að því mikilvæga verkefni. Heldur minna er af birkifræi þetta haustið en undanfarin ár. Þó má víða finna allmörg tré með fræi. Eftir rakt haust er fræið enn á birkitrjánum og því er kjörið að safna því þessa síðustu daga septembermánaðar og fram í október. Endurvinnslan hf. tekur við þeim birkifræjum sem safnað er í móttökustöðvum sínum á höfuðborgarsvæðinu, að Knarrarvogi 4 og Hraunbæ 123 í Reykjavík og Dalvegi 28 Kópavogi. Þaðan er fræinu skilað áfram til Hekluskóga. Önnur leið er að senda fræið beint til Hekluskóga í Gunnarsholti. Sérstakt góðgerðarkort er líka í boði fyrir viðskiptavini Endurvinnslunnar sem vilja styrkja Hekluskóga. Þá er kortið notað til að koma frjálsum framlögum til verkefnisins. Hekluskógar þennan góða stuðning öllum þeim sem lagt hafa verkefninu lið.

Birkifræi sem safnast verður sáð í haust í lítt gróin svæði á starfsvæði Hekluskóga. Einkum er sáð í svæði þar sem erfitt er að gróðursetja, t.d. í hraunum. Árangur sáninganna kemur ekki í ljós fyrr en eftir nokkur ár. Hann hefur þó reynst ágætur eins og efri myndirnar tvær sýna. Þær eru af trjám sem sáð var til árið 2008. Í ár eru gróðursettar um 330 þúsund plöntur á vegum Hekluskóga. Það er heldur meira en undanfarin ár. Auk þess er dreift um 175 tonnum af kjötmjöli til uppgræðslu. Notkun kjötmjöls hefur reynst sérlega vel í þessu uppgræðslustarfi enda er víðast hvar unnið á algjörlega beru landi.

Eldri gróðursetningar Hekluskóga, sem þekja nú um 1.200 hektara lands, dafna vel og eru trjáreitir farnir að sjást víða tilsýndar á öllu Hekluskógasvæðinu. Markmið Hekluskóga er að endurheimta birkiskóga og víðikjarr í nágrenni Heklu á landsvæði sem nemur tæplega einu prósenti af flatarmáli Íslands. Slíkir skógar minnka vikurfok í kjölfar öskugosa úr Heklu og öðrum eldfjöllum. Með skógunum eykst fjölbreytni gróðurs og dýralífs á svæðinu, auk þess að kolefni er bundið, bæði í jarðvegi og gróðri.

Vel kom í ljós þegar gaus í Eyjafjallajökli hversu vel birkiskógar þola öskufall. Lággróður á skóglausu landi getur farið mjög illa ef þykkt lag af eldfjallaösku leggst yfir landið en birkið stendur upp öskunni og vex áfram þrátt fyrir áföllin. Jafnvel getur öskufall verið eins og vítamínsprauta fyrir birkiskóginn því bæði eru í öskunni efni sem nýtast til vaxtar og svo kæfir hún lággróðurinn í skóginum. Samkeppni birkisins við annan gróður um næringarefni og vatn verður því minni meðan botngróðurinn er að ná sér á strik aftur.

Jafnvel þótt eldgosið sem nú geisar í Holuhrauni sé ekki öskugos gefur það tilefni til að vekja athygli á þessum megintilgangi Hekluskógaverkefnisins, að styrkja gróðurfar í grennd við eldstöðvar og draga úr hættunni á að öskufall leiði til gróðureyðingar og uppblásturs. Ef svo illa fer að eldsumbrotin í Holuhrauni færast inn undir jökulinn gæti komið til geigvænlegs öskugoss. Í grennd við eldstöðina eru víðáttumikil lítt gróin svæði sem mætti reyna að græða upp með aðferðum Hekluskóga, sérstaklega nú þegar loftslag fer hlýnandi og horfur eru á að skógarmörk færist svo hátt upp að birki geti vaxið um mestallt hálendið. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið.

Texti: Hreinn Óskarsson og Pétur Halldórsson
Myndir: Hreinn Óskarsson