Sænska blaðið Extraxt hefur birt ítarlega grein um skógrækt á Íslandi þar sem meðal annars er rætt um ForHot-verkefnið í Hveragerði og kynbætur Skógræktarinnar á lerki. Einn viðmælenda blaðsins er Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar.
Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum fram til 2030. Alls er gert ráð fyrir 6,8 milljörðum króna til aðgerða næstu fimm árin. Þar af renna fjórir milljarðar til kolefnisbindingarverkefna. Skógræktinni og Landgræðslu ríkisins hefur verið falið að efla með sér samstarf og vinna saman að aukinni kolefnisbindingu. Kolefnisbinding gæti orðið stærsta verkefni beggja þessara stofnana innan fárra ára ef áætlunin gengur eftir.
Auglýst eru til sölu á fasteignavef Morgunblaðsins bæjarhúsin að Stóra-Kollabæ í Fljótshlíð. Skilyrði fyrir kaupum eru að gerð verði áætlun um endurgerð húsanna í upprunalegri mynd og fyrirhugaða notkun þeirra. Merkar hleðslur eru í kjallara sem þykja varðveisluverðar og eldri hluti húsanna tengdist áður eldri torfbyggingum á staðnum. Afmörkuð hefur verið 2.000 fermetra lóð undir húsin (0,2 ha).
Félag skógarbænda á Norðurlandi bauð til skógargöngu fimmtudaginn 16. ágúst síðastliðinn að Hróarsstöðum í Fnjóskadal. Um 30 manns komu í gönguna. Skógræktarsvæðið á Hróarsstöðum er um 131 hektari og gróðursett hefur verið í 68 hektara. Rúmlega helmingi stærra land er friðað og þar kemur birkið upp að sjálfu sér.
Norska fyrirtækið Moelven sem nú reisir hæstu timburbyggingu í heimi í Brumunddal telur mögulegt að reisa skýjakljúfa úr timbri sem væru yfir 150 metra háir og jafnvel enn hræri. Byggingin sem nú rís í Brumunddal er nú orðin 85,4 metrar á hæð.