Skráð byggingarár húsanna að Stóra-Kollabæ er 1935 en vesturbærinn er mun eldri en austurbærinn og þ…
Skráð byggingarár húsanna að Stóra-Kollabæ er 1935 en vesturbærinn er mun eldri en austurbærinn og þar eru merkar hleðslur í kjallara sem teljast varðveisluverðar. Af nýjum eiganda er þess krafist að húsin verði endurgerð í upprunalegri mynd.

Auglýst eru til sölu á fasteignavef Morgunblaðsins bæjarhúsin að Stóra-Kollabæ í Fljótshlíð. Skilyrði fyrir kaupum eru að gerð verði áætlun um endurgerð húsanna í upprunalegri mynd og fyrirhugaða notkun þeirra. Merkar hleðslur eru í kjallara sem þykja varðveisluverðar og eldri hluti húsanna tengdist áður eldri torfbyggingum á staðnum.

Stóri-Kollabær tilheyrir fasteignasafni Skógræktarinnar en sala bæjarhúsanna þar var heimiluð á fjárlögum þessa árs. Ríkiskaup auglýsa eignina á fasteignavef Morgunblaðsins og gert er ráð fyrir að afmörkuð verði leigulóð fyrir húsin.

Bæjarhúsin að Stóra-Kollabæ eru þrjár burstir, járnklædd timburhús. Inngangur að vestari hlutanum er um miðhúsið en sérinngangur er að  austurhlutanum. Ekki er innangengt þar á milli. Skráð flatarmál húsanna eru 81,5 m² og byggingarár 1935 samkvæmt fasteignaskrá. Vestari burstirnar tvær, vesturbærinn, eru þó mun eldri en sú austasta, austurbærinn.

Húsin standa á fallegum stað í Fljótshlíðinni og þaðan er mjög fallegt útsýni um sveitina, til fjalla og ekki síst til suðurs í átt til sjávar. Stóri-Kollabær er um 8 km frá Hvolsvelli.

Fasteignin er í lélegu ástandi og þarfnast mikils viðhalds og endurbóta. Ástand austurbæjarins er þó  mun betra  en vesturbæjarins og var búið í austurbænum þar til fyrir um þremur árum. Ágætt svefnloft er í þeim hluta. Ástæða er talin vera til að yfirfara allar lagnir í húsinu s.s. raflagnir og vatnslagnir.

Undir mið- og vesturburstunum er niðurgrafinn kjallari. Þar eru fallegar steinhleðslur í útveggjum sem æskilegt er að verði varðveittar.
Gerð er krafa um að húsin haldi ytra útliti sínu og Skógræktin vekur athygli á því að endurbætur eru styrkhæfar hjá Minjastofnun. Endurgerðin skal miðast við upphaflega útlitsgerð húsanna en þó er heimilt að gera tæknilegar endurbætur í takt við tímann, eftir því sem þörf krefur og hæfa þykir í samráði við Skógræktina eða Ríkiseignir. Heimild er fyrir sölu húsanna á leigulóð í Fjárlögum 2018, 6 gr. lið 2.19.
 
Með tilboði í húsin þarf að fylgja greinargerð þar sem fram kemur:

  • Áætlun um endurbyggingu
  • Áætlaður verktími, sundurliðað eftir verkþáttum
  • Áform og framtíðarnotkun hússins

Gerður verður lóðarleigusamningur til 50 ára um nýja 2.000 m² lóð sem húsið stendur á og hefur hún fengið sérstakt lóðanúmer í fasteignaskrá, landnr. 226433. Leiguverð á ári er 4% af fasteignamati lóðar en þó aldrei lægra en 73 þús. kr. á ári og breytist í samræmi við byggingarvísitölu.

Frétt: Pétur Halldórsson