Síðasti bitinn í burðarvirki Mjøstårnet í Brumunddal í Noregi var hífður á sinn stað í gær. Þar með …
Síðasti bitinn í burðarvirki Mjøstårnet í Brumunddal í Noregi var hífður á sinn stað í gær. Þar með er byggingin hæsta timburbygging heims, 85,4 metrar á hæð. Ljósmynd af Facebook-síðu Mjøstårnet

Norska fyrirtækið Moelven sem nú reisir hæstu timburbyggingu í heimi í Brumunddal telur mögulegt að reisa skýjakljúfa úr timbri sem væru yfir 150 metra háir og jafnvel enn hærri. Byggingin sem nú rís í Brumunddal er nú orðin 85,4 metrar á hæð.

Kapphlaupið heldur áfram um hæstu timburbyggingu í heimi. Norðmenn eiga nú heimsmetið en segjast geta reist enn hærri timburhús. Ljósmynd af Facebook-síðu Síðasti bitinn kominn á sinn stað og húsið orðið 85,4 metra hátt. Ljósmynd af Facebook-síðu Mjøstårnet  Svo virðist sem enn séu ekki fundin takmörkin fyrir því hversu hátt megi byggja úr timbri. Sífellt berast fréttir af nýjum verkefnum sem felast í því að leysa stál og steinsteypu af hólmi og nota í staðinn krosslímdar timbureiningar til húsasmíða.

Byggingin í Brumunddal er kölluð Mjøstårnet og verður hæsta timburbygging heims þegar hún verður fullgerð en trúlega missir hún þann titil fljótlega miðað við það kapp sem virðist hlaupið í menn að reisa sífellt hærri mannvirki úr timbri. Samanlagt flatarmál Mjøstårnet verður 11.300 fermetrar, byggingin verður átján hæðir og þar verða íbúðir, hótel, skrifstofur, veitingastaðir og almenningsrými. Að auki verður reist 4.700 fermetra sundhöll.

Timbur í stað stáls í vindmyllur

Moelven-fyrirtækið stendur að ýmsum áhugaverðum verkefnum og um þessar mundir er unnið að því í samstarfi við sænska nýsköpunarfyrirtækið Modvion að hanna og smíða timburturna fyrir vindrafstöðvar. Stefnt er að því að reisa 150 metra háan turn fyrir timburrafstöð sem á að standa fullbúin árið 2020. Efniviðurinn er límtré og smíðakostnaðurinn er sagður verða 30-40 prósentum lægri en ef notað væri hefðbundið efni, stál.

Að auki er timbrið mun betra fyrir umhverfið, hefur mun minni koltvísýringslosun í för með sér og timbrið geymir kolefni svo lengi sem mannvirkið stendur. Að notkun lokinni má nota timbrið í eitthvað annað eða sem eldsneyti í stað jarðefnaeldsneytis. Límtréð í turninn verður framleitt í elstu límtrésverksmiðju í Svíþjóð, Moelven Töreboda, sem hefur verið starfrækt frá árinu 1919.

Norðmenn nú með heimsmetið

Frá og með deginum í gær, 4. september 2018, stendur hæsta timburbygging heims í Brumunddal í Noregi. Síðasti bitinn í burðarvirki Mjøstårnet var þá hífður á sinn stað og þar með var húsið orðið 84,5 metra hátt. Áætlað er að smíðinni verði að fullu lokið á næsta ári. En þar með lýkur ekki kapphlaupinu um hæstu timburbyggingu heims. Og Moelven-fyrirtækið ætlar greinilega að hlaupa áfram með. Á vefsíðu þess er haft eftir aðalforsprakkanum að smíði Mjøstårnet, Rune Abrahamsen, sem starfar hjá Moelven Limtre AS, að með stærri grunnfleti megi teygja sig enn lengra upp í loftið með yfir 150 metra háum byggingum úr timbri og jafnvel enn hærri. 

Einnig er vitnað í Sverre Tiltnes sem stýrir Bygg21, verkefni norskra stjórnvalda um hagkvæmar og sjálfbærar byggingar framtíðarinnar. Hann segir að Mjøstårnet sé djarft skref í átt til visthæfari bygginga framtíðarinnar. Þarna sé byggt á reynslu Moelven-fyrirtækisins af stórvirkjum eins og Ólympíuhöllum í Lillehammer og flugstöðvarbyggingunni á Gardemoen-flugvelli við Ósló þar sem lengra var seilst en áður með möguleika límtrés í burðarvirki. Þetta sé byggingaverkfræði á heimsmælikvarða.

Síðasti bitinn kominn á sinn stað og húsið orðið 85,4 metra hátt. Ljósmynd af Facebook-síðu Mjøstårnet  Þá nefnir Tiltnes algengar kerlingabækur um að burðarþol timburs sé of lítið og að timburhús séu hættuleg í eldsvoða. Hvort tveggja sé rangt. Mjøstårnet eigi að vera kennslubókardæmi um hvort tveggja, að háhýsi úr timbri séu bæði sterk og eldtraust. Hjá Moelven-fyrirtækinu segjast menn þegar finna fyrir því að þetta sé að bera árangur.

Allt úr timbri

Og Mjøstårnet-byggingin er öll úr timbri öfugt við sum önnur háhýsi sem kölluð eru timburháhýsi en eru miklu frekar blendingshús með kjarna úr steinsteypu. Dæmi um það eru HoHo-turninn í Vínarborg og Brock Commons byggingin í Vancouver sem talin hafa verið til hæstu timburháhýsa heims. Nú  hefur verið lagt til að slík hús verði kölluð blendingshús timburs og steinsteypu. Þar með yrði á hreinu hvaða hús væru raunveruleg timburháhýsi og hver ekki.

Forvitnilegt verður að fylgjast áfram með kapphlaupinu um hæstu timburbyggingar í heimi. Víst er að áhuginn fer vaxandi í byggingageiranum enda býður þessi tækni upp á mjög stuttan byggingatíma og þar með lægri byggingakostnað. Nú þegar eru farin að rísa hús á Íslandi úr krosslímdum timbureiningum. Dæmi um það er nýtt Fosshótel í Mývatnssveit. Byggingamenn á Íslandi eru farnir að líta til þessara möguleika og þegar eru farin að sjást dæmi um byggingar þar sem krosslímdar einingar eru notaðar, í það minnsta að hluta til.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Facebook-síða Mjøstårnet