Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra,…
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, á blaðamannafundinum í dag þar sem aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum 2018-2030 var kynnt. Ljósmynd: Skjámynd úr beinni útsendingu Ríkisútvarpsins frá fundinum
Ríkisstjórnin kynnti í dag aðgerðaáætlun sína í loftslagsmálum fram til 2030. Alls er gert ráð fyrir 6,8 millj­örðum króna til aðgerða í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar næstu fimm árin. Þar af renna fjórir milljarðar til kolefnisbindingarverkefna. Skógræktinni og Land­græðslu ríkisins hefur verið falið að efla með sér sam­starf og vinna saman að aukinni kolefnisbindingu. Kolefnisbinding gæti orðið stærsta verkefni beggja þessara stofnana innan fárra ára ef áætlunin gengur eftir.
 
Meginmarkmið aðgerðanna er að Ísland standi við skuldbindingar sínar samkvæmt Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál. Gerð áætlunarinnar hefur verið á höndum umhverfisráðherra og ráðuneytis hans en verkefnastjórn með fulltrúum sjö ráðuneyta hefur unnið að aðgerðaáætluninni út frá stjórnar­sáttmál­a­n­um.

„Aldrei hefur jafnmiklu fjármagni verið varið til loftslagsmála á Íslandi," segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. Skjámynd úr beinni útsendingu Ríkisútvarpsins frá fundinum Umbylting orkukerfa og kolefnisbinding

Áætluninni er skipt niður í 33 aðgerðir og að sögn Guðmundar Inga Guðbrands­sonar, umhverfis- og auðlinda­ráðherra, eru aðgerðirnar af tvennum toga. Annars vegar felast þær í því að umbylta orkukerfum frá jarðefna­eldsneyti yfir í endurnýjan­lega orkugjafa. Hins vegar á að binda kolefni með ræktun og að endur­heimta votlendi. Að auki á að ráðast í ýmsar aðgerðir til að draga úr sóun, bæta meðferð úrgangs, auka fræðslu, styðja við ný­sköpun og loftslagsvæna tækni, loftslagsstefnu Stjórnar­ráðsins og aðgerðir í landbúnaði og iðnaði.

4 milljarðar til kolefnisbindingar fram til 2023

Samkvæmt fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður 6,8 milljörðum króna varið til sérstakra aðgerða í loftslags­málum næstu fimm árin, sem fyrr er greint. Það er mikil aukning enda benti umhverfis­ráðherra á að aldrei hefði jafn­miklu fjár­magni verið varið til loftslags­mála hérlendis.

Gróf skipting fjárins liggur fyrir eins og fram kemur í meginmáli aðgerða­áætlunar­innar. Um 4 milljörðum verður varið til kolefnis­bindingar á næstu fimm árum, um 1,5 milljörðum króna til upp­byggingar innviða fyrir rafbíla, rafvæðingar hafna og fleiri nauðsynlegra aðgerða í orkuskiptum hér á landi, um 500 milljónum króna til nýsköpunar vegna loftslags­mála í gegnum Loftslags­sjóð og um 800 milljónum króna til margvís­legra aðgerða, svo sem rannsókna á súrnun sjávar og aðlögunar að loftslags­breytingum, bætts kolefnis­bókhalds, alþjóðlegs starfs og fræðslu.

Aukið samstarf Skógræktarinnar og Landgræðslunnar

Skógræktin og Landgræðsla ríkisins fá stórt hlutverk í kolefnisbindingu. Hefur þessum stofnunum þegar verið falið að auka samstarf sín í milli og vinna í sameiningu að sem mestri kolefnisbindingu. Haldnir hafa verið fundir milli stofnananna og hafist handa við skipulagningu og undirbúning verkefna.

Frá fundinum í dag. Skjámynd úr útsendingu RíkisútvarpsinsAukning framlaga stjórnvalda til kolefnis­bind­ingar­verk­efna verður stigvaxandi. Í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir sameiginlegu fjár­magni til Skógræktarinnar og Land­græðsl­unnar sem nemur 250 milljónum króna. Þar af renna 205 milljónir króna til beinna verkefna og skipta stofnanirnar þeirri upphæð á milli sín til helm­inga. Þær 45 milljónir króna sem út af standa eru eyrna­merktar þremur nýjum stöðu­gildum sér­fræð­inga hjá þessum stofnunum, einni hjá Skóg­ræktinni vegna skógræktarverkefna en tveimur hjá Landgræðslunni vegna landgræðsluverkefna annars vegar og verkefna á sviði endur­heimtar votlendis hins vegar.

Áhersla á birki 2019

Ákveðið hefur verið að hið aukna fjármagn á næsta ári verði að stórum hluta nýtt til aukinnar gróður­setningar birkis enda lítill tími til stefnu og auðvelt að auka birkirækt með skömmum fyrirvara. Þegar er hafin framleiðsla á hálfri milljón birkiplantna sem gróður­­settar verða næsta vor og á næstunni verður boðin út framleiðsla á öðru eins til gróður­setningar næsta haust.

Samtímis er gert ráð fyrir útboði á aukinni trjáplöntuframleiðslu fyrir árið 2020. Það ár er áætlað að aukið framlag til kol­efnisbindingar­verkefna verði komið upp í um 450 milljónir króna og þá fyrst kemur aukningin inn af krafti. Hvað varðar skógrækt er ætlunin að beita fjölbreyttum verkefnum og efla nytjaskógrækt á bújörðum, skógrækt á löndum bæði Skógræktarinnar og Landgræðslunnar auk landgræðslu­skógræktar og fleiri verkefna. Eftir er að útfæra þetta og það verður gert í nánu samstarfi stofnananna beggja.

Kolefnisbinding verður meginverkefni

Ef litið er lengra fram í tímann og aðgerðaáætlunin gengur eftir má ætla að framlag stjórnvalda til kol­efnis­­bindingar­verk­efna fari upp í um 1,7 milljarða króna á síðasta ári áætlunarinnar, 2023. Að óbreyttu yrðu verkefni á sviði kolefnis­bindingar þá orðin meginverkefni bæði Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Í máli Kristjáns Þórs Júlíussonar, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, á kynningar­fundinum í dag kom fram að um þarnæstu mánaðamót væri búist við tillögum frá sauðfjár­bændum um aðgerðir til kolefnis­bindingar á sauðfjárbúum. Sambærilegra tillagna væri að vænta úr öðrum búgreinum einnig.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir: Skjámyndir úr beinni útsendingu Ríkisútvarpsins frá fundinum