Sænska blaðið Extraxt hefur birt ítarlega grein um skógrækt á Íslandi þar sem meðal annars er rætt um ForHot-verkefnið í Hveragerði og kynbætur Skógræktarinnar á lerki. Einn viðmælenda blaðsins er Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar.

Blaðamaðurinn Anna Liljemalm skrifar greinina og ræðir við Bjarka sem rekur örlög skóganna sem uxu á Íslandi við landnám og baráttu Íslendinga við náttúruöflin, gróður- og jarðvegseyðingu. Einnig er sagt frá starfi landsmanna að skógrækt og landgræðslu í rúma öld og stærstu umhverfishreyfingu landsins, skógræktarhreyfingunni, sem um 3,5 prósent þjóðarinnar tilheyra. Um 95 prósent landsmanna vilji meiri skóg samkvæmt könnunum.

"Innflutningur lifandi trjáa hefur borið með sér óværu sem veldur skaða á bæði yngri og eldri trjám á landinu. En við þurfum að nota erlendan efnivið því íslenska birkið er bæði kræklótt og vex hægt,“ segirBjarki Þór Kjartansson. Ljósmynd: Extrakt/Linn BergbrantMinnst er á nýlega könnun sem sýndi að Íslendingar eyða að jafnaði meiri tíma í skógi en bæði Svíar, Norðmenn og Írar. Ýmislegt sé þeim þó mótdrægt í skógræktinni svo sem óblíð  veðuröfl, jarðskjálftar og eldgos. Rætt er um hitabreytingarnar sem urðu í jarðvegi í Hveragerði í Suðurlandsskjálftunum fyrir áratug og ollu því að tré tóku að drepast. Þeir atburðir hafi þó vakið athygli loftslagsvísindafólks um allan heim og getið af sér alþjóðlega rannsóknarverkefnið ForHot. Dýrt er að búa til slíkar aðstæður með orkufrekum búnaði til að líkja eftir mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga en þarna komu aðstæðurnar upp ókeypis. Hægt er að sjá hvernig trén hafa brugðist við hitastigshækkun upp á eitt, þrjú, fimm og tíu stig en mest hefur hitinn hækkað um fimmtíu stig.

Þá er einnig rætt við sænskan vísindamann, Håkan Wallander, sem tekur þátt í umræddu verkefni. Wallander er prófessor í jarðvegslíffræði við háskólann í Lundi og kemur árlega til rannsókna í Hveragerði. Hann varar að vísu við of miklum væntingum af þessari rannsókn. Hún geti vissulega gefið vísbendingar en hafa verði í huga að þarna hafi jarðvegurinn hitnað en ekki loftslagið. Við loftslagsbreytingar verði þetta öfugt, að loftið hlýni en síður jarðvegurinn.

Næst er fjallað um ræktun Skógræktarinnar á lerkiblendingnum Hrym. Á síðustu árum hafi menn tekið eftir meiri vexti í íslensku skógunum en áður sem líklega hangi saman við loftslagsbreytingar. Síberíulerki hafi reynst sérlega viðkvæmt fyrir hlýnuninni enda aðlagað síberísku meginlandsloftslagi. Bjarki Þór sýnir blaðakonunni Hrymplöntur í pottum og segir frá því að þessi blendingur vaxi betur en báðir foreldrarnir, evrópulerki og rússalerki.

Bjarki bendir að lokum á að mjög margir Íslendingar kunni vel við skóginn. En jafnframt telur hann að núverandi kynslóðum finnist þær bera ábyrgð á syndum forfeðranna sem eyddu skógum landsins. Það eigi að minnsta kosti við um hann sjálfan. Auk Bjarka hitti blaðakonan tvo aðra starfsmenn Skógræktarinnar, Eddu S. Oddsdóttur, sviðstjóra rannsóknasviðs, og Aðalstein Sigurgeirsson fagmálastjóra.

Greinina má lesa á vef Extrakt.

Texti: Pétur Halldórsson