Vélaverkfræðinemar við Háskólann í Reykjavík hafa hannað og smíðað nýtt tæki sem leysir tvö eldri tæki af hólmi við frævinnslu Skógræktarinnar úr könglum barrtrjáa. Vélin þurrkar bæði og klengir í sömu lotunni. Hún verður afhent Skógræktinni til notkunar í fræmiðstöðinni á Vöglum þegar prófunum og endanlegum frágangi er lokið.
Í tilefni af hálfrar aldar afmæli norræns rannsóknasamstarfs í skógvísindum verður haldin afmælisráðstefna 18. nóvember í Alnarp í Svíþjóð. Samstarfið kallast Norrænar skógrannsóknir á íslensku og Nordic Forest Research á ensku en gengur í daglegu tali undir skammstöfuninni SNS sem stendur fyrir SamNordisk Skogsforskning. Íslendingar gegna nú formennsku í SNS.
Vísindaport Háskólaseturs Vestfjarða býður til skógræktarfræðslu föstudaginn 4. nóvember þar sem Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, skógfræðingur og sviðstjóri skógarþjónustu Skógræktarinnar, fjallar um breytingar sem orðið hafa á skógum allt frá landnámi til dagsins í dag, upphaf skipulagðrar skógræktar á Íslandi og stofnanaumhverfi skógræktar. Einnig spáir hún í spilin um framtíðina.
Þjóðkirkjan hefur bæst í hóp þeirra sem taka höndum saman varðandi endurheimt skóglendis á Íslandi. Hreinn Óskarsson, fulltrúi Skógræktarinnar, afhenti biskupi Íslands, Agnesi M. Sigurðardóttur, fjölda birkifræja til sáningar við barnamessu í Bústaðakirkju um miðjan október.
Grisjunarflokkur skógarhöggsmanna af sex þjóðernum vann nú í októbermánuði að fyrstu grisjun skógar að Hamri á Bakásum í Húnabyggð. Þetta er líklega stærsta einstaka grisjunarverkefni sem ráðist hefur verið í hjá norðlenskum skógarbændum.