Lerkiskógur á Hamri Bakásum að grisjun lokinni. Í baksýn sést austur yfir Blöndu til Langadals. Ljós…
Lerkiskógur á Hamri Bakásum að grisjun lokinni. Í baksýn sést austur yfir Blöndu til Langadals. Ljósmynd: Johan Holst

Grisjunarflokkur skógarhöggsmanna af sex þjóðernum vann nú í októbermánuði að fyrstu grisjun skógar að Hamri á Bakásum í Húnabyggð. Þetta er líklega stærsta einstaka grisjunarverkefni sem ráðist hefur verið í hjá norðlenskum skógarbændum.

Lerkiskógur á Hamri fyrir grisjun. Ljósmynd: Johan HolstJohan Holst, skógræktarráðgjafi Skógræktarinnar í Húnavatnssýslum, skipulagði verkið og stýrði því. Alls voru grisjaðir 28 hektarar skógar sem er að meðaltali um tuttugu ára gamall. Bakásar blasa við vestan Blöndu þegar ekið er um Langadal frá Blönduósi í átt til Skagafjarðar. Þar er einnig myndarleg skógrækt á vegum Skógræktarfélags Austur-Húnavatnssýslu á jörðinni Gunnfríðarstöðum sem liggur að skógræktarsvæðinu á Hamri.

Að sögn Johans hefur mest verið gróðursett af lerki á Hamri en einnig töluvert af alaskaösp og fleiri tegundum. Grisjunin nú fór fram að mestu í lerkiskógi en lítillega í asparskógi. Í hópi grisjunarmanna voru sjö reyndir skógarhöggsmenn af sex þjóðernum, frá Íslandi, Noregi, Frakklandi, Danmörku, Kanada og Bretlandi. Johan segir að verkið hafi gengið hratt og vel samkvæmt áætlun.

Með þessari grisjun er búið í haginn fyrir framtíðina því nú hafa verið fjarlægð lélegustu trén úr skóginum og þau sem eftir standa fá betra rými til að vaxa og gildna. Jafnframt tryggir grisjunin að skógurinn þoli betur vindálag þegar hann stækkar. Til verður verðmætari skógur sem þar af leiðandi mun gefa betri og verðmætari afurðir í framtíðinni. Auk þess er grisjun sem þessi góður undirbúningur fyrir næstu grisjun skógarins sem væntanlega verður unnin með grisjunarvél eftir 10-15 ár.

Að grisjun lokinni tók skógfræðingurinn og skógræktarráðgjafinn Guðríður Baldvinsdóttir verkið út með aðstoð Johans og eru meðfylgjandi myndir frá þeim. Einnig fylgir kort með grisjunaráætluninni og GPS-gögn sem sýna feril grisjunarmanna við vinnu í skóginum.

Texti: Pétur Halldórsson
Myndir:  Johan Holst og Guðríður Baldvinsdóttir