Aðstaða til skíðagöngu í Haukadalsskógi hefur verið bætt með nýjum leiðum og endurbótum á þeim sem fyrir voru. Leiðirnar eru hugsaðar sem göngu- og hlaupaleiðir þegar ekki er snjór. Sveitarfélögin í uppsveitum Árnessýslu taka þátt í skipulagningu leiða og kynningu og er það liður í átaki um heilsueflandi samfélag.
Morgunblaðið greinir frá því að hugmyndir séu uppi um það í Dalabyggð að koma þar upp aðstöðu og afla þekkingar til að koma upp fjölgunarstöð fyrir kynbætta lerkiblendinginn 'Hrym'. Verkefnið er á frumstigi en ætti að skýrast næsta hálfa árið hvort af því getur orðið.
Til aspa teljast hartnær þrjátíu tegundir sumargrænna lauftrjáa af víðiætt sem vaxa á norðurhveli jarðar. Tvær þeirra þekkjum við Íslendingar best, blæöspina sem vex villt á nokkrum stöðum hérlendis og alaskaösp sem er algengt tré í þéttbýli en líka ein mikilvægasta nytjatrjátegund okkar Íslendinga. Þegar ösp er nefnd í daglegu tali er í seinni tíð yfirleitt átt við alaskaösp.
Ákveðið hefur verið að hin árlega Fagráðstefna skógræktar fari fram á Ísafirði 29.-30. mars 2023. Þema ráðstefnunnar verður tilkynnt síðar ásamt dagskrá og hagnýtum upplýsingum.
Um það leyti sem haustgróðursetningu var að ljúka hjá skógræktendum vítt og breitt um landið skrifaði Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri grein sem birtist í Bændablaðinu 3. nóvember. Þar reifar hann vaxandi skógrækt á landinu, vaxandi þörf fyrir plöntur, verktaka og nýjar gróðrarstöðvar en einnig fræ og græðlingaefni af góðum uppruna.  Útlit sé fyrir að gróðursettar skógarplöntur nái sex milljónum á þessu ári.