Vélaverkfræðinemarnir við vélina sem bæði þurrkar könglana og klengir þá. Frá vinstri: Í hópnum eru …
Vélaverkfræðinemarnir við vélina sem bæði þurrkar könglana og klengir þá. Frá vinstri: Í hópnum eru Maxim Rudkov verkefnastjóri, Eric Wolf Ruge, Steinunn Björg Óladóttir og Fanney Einarsdóttir. Ljósmynd: Bjarki Þór Kjartansson

Vélaverkfræðinemar við Háskólann í Reykjavík hafa hannað og smíðað nýtt tæki sem leysir tvö eldri tæki af hólmi við frævinnslu Skógræktarinnar úr könglum barrtrjáa. Vélin þurrkar bæði og klengir í sömu lotunni. Hún verður afhent Skógræktinni til notkunar í fræmiðstöðinni á Vöglum þegar prófunum og endanlegum frágangi er lokið.

Verkefnastjórinn, Maxim Rudkov, kynnir vélina. Ljósmynd: Bjarki Þór KjartanssonFjórir meistaranemar í námskeiðinu „Hönnun vélbúnaðar“ í vélaverkfræði við HR höfðu fyrir nokkru samband við Skógræktina í leit að hagnýtu verkefni til að kljást við. Málið var kannað hjá stofnuninni og í ljós kom að tækjabúnaður til fræverkunar á Vöglum í Fnjóskadal væri orðinn gamall og óhentugur. Sérstaklega þótti óheppilegt að könglaþurrkun og klenging skyldi þurfa að fara fram í tvennu lagi og í tveimur aðskildum vélum. Klenging kallast það þegar fræin eru hrist úr könglunum.

Valgerður Jónsdóttir, verkefnastjóri fjölgunarefnis hjá Skógræktinni, tók að sér að leggja línur að nýju tæki sem nemendur við HR tóku svo að sér að búa til. Fóru þau í gegnum alla þætti við hönnun vélbúnaðar, allt frá því að taka við óskum og kröfum verkkaupa yfir í hönnun og loks smíði á tækinu. Úr varð vél sem þau kalla SeedEx og bæði þurrkar og klengir í sömu áfyllingunni. Einfalt er að fylla vélina könglum og losa úr henni fræið og nægir að einn starfsmaður vinni við vélina. Notað er hitaveituvatn til að verma loftið sem þurrkar könglana og er það talsvert ódýrara en að hita loftið með rafmagni.

Föstudaginn fjórða nóvember kynntu nemendurnir niðurstöður sínar kennara sínum, Joseph Timothy Foley prófessor, samnemendum og tveimur starfsmönnum Skógræktarinnar. Á undanförnum tveimur mánuðum hefur nemendahópnum tekist að vinna alla forathugun og hönnunarvinnu ásamt megninu af smíðavinnunni. Vélin er ekki alveg fullfrágengin eins og sést á meðfylgjandi myndum en fram undan er að ljúka verkinu að fullu og gera síðan ítarlegar prófanir á vélinni. Að því loknu verður hún flutt norður í Vagli til notkunar hjá Skógræktinni um ókomna tíð.

Samstarf Skógræktarinnar og Háskólans í Reykjavík hefur hér skilað frábærum árangri fyrir tækniþekkingu nemenda og skógræktarstarfið í landinu. Skógræktin þakkar gott verk og samstarf þessum kraftmikla hópi vélaverkfræðinema sem í eru Maxim Rudkov (verkefnastjóri), Eric Wolf Ruge, Fanney Einarsdóttir og Steinunn Björg Óladóttir.Grunnhugmynd að vélinni. Mynd: Verkefnishópurinn

Texti: Bjarki Þór Kjartansson og Pétur Halldórsson

 Ein af hönnunarteikningunum af tækinu. Mynd: Vinnuhópurinn