Í tilefni af hálfrar aldar afmæli norræns rannsóknasamstarfs í skógvísindum verður haldin afmælisráðstefna 18. nóvember í Alnarp í Svíþjóð. Samstarfið kallast Norrænar skógrannsóknir á íslensku og Nordic Forest Research á ensku en gengur í daglegu tali undir skammstöfuninni SNS sem stendur fyrir SamNordisk Skogsforskning. Íslendingar gegna nú formennsku í SNS.

Dagskrá ráðstefnunnarEdda Sigurdís Oddsdóttir, sviðstjóri rannsókna hjá Skógræktinni, er nú formaður SNS og verður meðal frummælenda á ráðstefnunni 18. nóvember. Ráðstefnan fer fram í Alnarp í Svíþjóð þar sem höfuðstöðvar SNS eru. Fyrir hönd Íslendinga talar líka Hjördís Jónsdóttir, skógfræðinemi við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem er fulltrúi ungu kynslóðarinnar í stjórn SNS.

Meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni er yfirferð um sögu SNS, rætt verður um kynjajöfnuð í skógargeiranum, ólík not af skógum, framtíð SNS og fleira. Öllum er velkomið að skrá sig til ráðstefnunnar.

Texti: Pétur Halldórsson