Afmælishátíð skógasviðs NordGen sem fram fór með rafrænum hætti 16. september hefur nú verið birt í heild sinni á vefnum. Á upptökunni eru fluttar kveðjur frá fulltrúum allra aðildarlanda samstarfsins. Einnig má horfa á alla fyrirlestrana frá þemadeginum í vor sem leið.
Það kann að vera að bera í bakkafullan lækinn að fjalla um möguleika aukinnar skógræktar sem lið í að takast á við loftslagsbreytingar, en það er reyndar talsverð þróun í þeim efnum um heim allan sem og hér á landi, sem vert er að segja frá. Svo veitir e.t.v. ekki af að rifja eitt og annað upp af og til. Þetta skrifar Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri í fyrstu greininni í greinaröð sem Landssamtök skógareigenda standa fyrir í samvinnu við Skógræktina.
Aðalsteinn Sigurgeirsson, fagmálastjóri Skógræktarinnar, leiðbeinir um söfnun, meðhöndlun og sáningu greni- og furufræja í þremur nýjum myndböndum sem Skógræktin hefur gefið út. Nú er mikið fræ á þessum tegundum, einkum sunnan- og vestanlands, og tímabært að safna fræi.
Skógræktin og One Tree Planted hafa undirritað samning um að rækta skóg á Ormsstöðum í Breiðdal. Teknir verða 170 hektarar undir þetta verkefni í neðanverðri brekkunni ofan þjóðvegar. Á næstu tveimur árum verða gróðursett þar 350.000 tré.
Örn Óskarsson, líffræðingur og skógræktarmaður á Selfossi, kennir á námskeiði sem Endurmenntun Háskóla Íslands stendur fyrir miðvikudaginn 21. október. Þar verða kynntar trjátegundir sem hafa reynst vel á Íslandi, uppruni þeirra og mögulegt notagildi skóga framtíðarinnar.