Ormsstaðir í Breiðdal. Skógræktin erfði jörðina árið 2005. Þar er land rýrt og mjög rofið en tekur s…
Ormsstaðir í Breiðdal. Skógræktin erfði jörðina árið 2005. Þar er land rýrt og mjög rofið en tekur senn að breytast í gróskumikið skóglendi með hjálp One Tree Planted. Eini fundarstaður burstajafna á landinu er á Ormsstöðum. Hann verður verndaður áfram og tilkoma skógar í grennd við hann gæti gefið honum færi á að breiðast út í framtíðinni því tegundinni líður vel í skógi. Ljósmynd: Þröstur Eysteinsson

Skógræktin og One Tree Planted hafa undirritað samning um að rækta skóg á Ormsstöðum í Breiðdal. Teknir verða 170 hektarar undir þetta verkefni í neðanverðri brekkunni ofan þjóðvegar. Á næstu tveimur árum verða gróðursett þar 350.000 tré.

Jörðin Ormsstaðir er í norðanverðum Breiðdal skammt innan við Breiðdalsvík. Síðasti ábúandinn, Sigríður Brynjólfsdóttir, arfleiddi Skógræktina að Ormsstöðum árið 2005, með þeim skilyrðum að þar skyldi rækta skóg. Síðan hefur Skógræktin verið að leita leiða til að fjármagna þá skógrækt og hefur það nú loks tekist. Um er að ræða 170 ha svæði í neðanverðri brekkunni ofan þjóðvegar.

Styður við Heimsmarkmið SÞ

Rýrir mosamóar og melar inn á milli eru einkennandi fyrir núverandi ástand gróðurfars á Ormsstöðum sem er mjög bágborið og mikið rofið. Votlendisgróður fær að dafna á votlendum svæðum innan skógræktarsvæðisins og njóta nálægðarinnar við skóginn. Skriðufjall í baksýn. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonOne Tree Planted eru góðgerðarsamtök með það markmið að auðvelda fólki að bæta umhverfið með gróðursetningu trjáa. Verkefni þeirra eru víða um heim og fara fram í samstarfi við nærsamfélög og sérfræðinga til að skapa ágóða fyrir náttúruna, fólk og dýralíf. Skógrækt endurreisir skóga í kjölfar skógareyðingar, hefur jákvæð samfélagsleg áhrif t.d. með því að skapa störf, bindur kolefni úr andrúmsloftinu og eflir líffjölbreytni. Verkefnin ná fjölþættum markmiðum og skapa margs konar ágóða sem styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Hægt er að fræðast um One Tree Planted á vefnum onetreeplanted.org.

Nú er verið að ljúka við að girða svæðið og er það verk unnið af Skúla Björnssyni, sem er öllu skógræktarfólki að góðu kunnur. Svæðið er venjulegt beitiland, að mestu rýrt og að stórum hluta rofið. Skógurinn verður blanda trjátegunda, talsvert birki í jöðrunum, stafafura á rýrustu svæðunum, sitkagreni á þeim skárri og alaskaösp meðfram lækjum. Þá verða opin svæði, einkum þar sem land er blautt og þar fær votlendisgróður að dafna. Þannig verður alls gróðursett í um 140 ha af þeim 170 sem verða innan girðingar. Það sem er nýstárlegt við þetta verkefni er að til stendur að gróðursetja í allt svæðið á aðeins tveimur árum.

Verndun burstajafna tryggð

Horft til Ormsstaða af svæðinu sem nú hefur verið tekið undir skógrækt. Ljósmynd: Þröstur EysteinssonSkógræktarsvæðið er innan hverfisverndarsvæðis. Er það ekki síst af því að á Ormsstöðum er eini fundarstaður byrkningsins burstajafna á landinu (Lycopodium clavatum). Sá fundarstaður er þó utan girðingarinnar og talsvert frá henni. Honum verður því ekki raskað við skógræktarframkvæmdir. Reyndar hefur burstajafni mikla útbreiðslu í heiminum og finnst víðast hvar í barrskógum. Það er því hugsanlegt að tilkoma skógar í nágrenninu stuðli að útbreiðslu burstajafnans þegar fram líða stundir. Samkvæmt aðalskipulagi Fjarðabyggðar er gert ráð fyrir skógrækt á þessu svæði, enda lá fyrir áætlun þess efnis áður en skipulagið var gert.

Þegar fram líða stundir munu melar og mosaþembur sem nú einkenna meirihluta svæðisins fá í sig öflugri gróður, bæði trén sjálf og undirgróður. Skógurinn verður búsvæði fjölda fuglategunda, sveppa, skordýra og annars lífs. Fjölbreyttur skógurinn verður útivistarsvæði fyrir gesti og gangandi. Síðast en ekki síst mun skógurinn leggja sinn skerf til kolefnisbindingar, sem verður viðsnúningur frá þeirri losun sem nú á sér stað á hinu rofna landi Ormsstaða.

Texti: Þröstur Eysteinsson og Pétur Halldórsson