Aðsókn að tjaldsvæðum Skógræktarinnar í Vaglaskógi og Hallormsstaðaskógi hefur verið með mesta móti í sumar. Frá byrjun ágústmánaðar og fram til 17. ágúst voru gistinætur á Hallormsstað orðnar um 6.500 en fyrra met í ágústmánuði var frá árinu 2002 þegar gistinætur urðu um 4.300. Íslendingar hafa verið mest áberandi í sumar en fjöldi útlendinga hefur farið vaxandi fram undir þetta.
Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2020 verður eingöngu opinn kjörnum aðalfundarfulltrúum. Fundurinn verður einungis haldinn til að afgreiða nauðsynleg aðalfundarstörf.
Ný mæling á þróttmiklu lerkitré í Hallormsstaðaskógi sýnir að það er rétt rúmlega 25 metrar á hæð. Tréð er enn í miklum vexti og ekki er vitað um hærra lerkitré á landinu. Skógmælingafólk frá Mógilsá var á ferðinni á Hallormsstað og sló máli á tréð ásamt skógarverði.
Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskógasviðs Skógræktarinnar, segir að sú aðferðafræði sem unnið er eftir í Hekluskógaverkefninu sé farin að sanna sig. Birki er gróðursett í bletti svo það geti sáð sér út af sjálfsdáðum. Sjálfsáning er þegar hafin frá lundum sem komnir eru vel á legg. Hreinn býst við að nýir skaðvaldar sem nú herja á birki og fleiri tegundir muni missa þróttinn með tímanum, meðal annars þegar óvinir þeirra taka að herja á þá.
Vinna við stígagerð og viðhald á Þórsmörk hefur gengið vel í sumar. Hópur sumarstarfsfólks hefur verið þar að störfum fyrir tilstilli atvinnuátaks stjórnvalda en eftir að liðkast fór um ferðalög fólks til landsins hafa sjálfboðaliðar bæst í hópinn. Þrátt fyrir veirufaraldurinn náðist að skipuleggja sex vikna sjálfboðastarf á svæðinu í sumar.