Afmælishátíð skógasviðs NordGen sem fram fór með rafrænum hætti 16. september hefur nú verið birt í heild sinni á vefnum. Á upptökunni eru fluttar kveðjur frá fulltrúum allra aðildarlanda samstarfsins. Einnig má horfa á alla fyrirlestrana frá þemadeginum í vor sem leið.

Árlega leiðir samstarf innan NordGen Skog, skógasviðs NordGen, saman mörg hundruð manns til ýmissa verkefna. Með þemadögum, ráðstefnum og námsstyrkjum á vegum NordGen Skog hafa orðið til fjölmörg mikilvæg verkefni af ýmsum toga en einnig sambönd milli fólks og nýjar hugmyndir. Á þessu ári er hálf öld liðin frá því að þetta samstarf hófst.

Hefurðu heyrt um Svíann, Danann og Norðmanninn?

Sagan hófst í París 1966 þar sem hittust Svíi, Dani og Norðmaður. Upphaf sögunnar minnir á ákveðna tegund skemmtisagna þar sem þrjár manneskjur, hver af sínu þjóðerni, lenda í einhvers konar ævintýrum eða klandri, nokkuð sem Svíar kalla Bellman-sögur. Þar er það jafnan Svíinn, „Bellman-inn“, sem er klárastur eða stendur uppi sem sigurvegarinn. En þar endar samlíkingin við fundinn í París 1966 sem leiddi til þess að skógasvið NordGen var stofnað 1970. Svíinn, Daninn og Norðmaðurinn hittust þar á fundi á vegum efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD þar sem fjallað var um trjáfræ og skógarplöntur. Af því spratt samvinna þar sem allir eru sigurvegarar.

Að loknum löngum fundardegi fóru þremenningarnir saman á bar þar sem þeir komust að því að efla þyrfti samstarf milli Norðurlandanna á skógarsviðinu. Fjórum árum seinna var svo sett á fót fræ- og plönturáð norræna skógargeirans, NSFP, eða Nordiska skogsbrukets frö och plantråd.

Fyrsti fundur ráðsins var haldinn í október 1970 og þar sátu þrír fulltrúar frá hverju landi, Danmörku, Finnlandi, Noregi og Danmörku, en Ísland var ekki með í byrjun. Dagskipan þeirra var að koma á fót norrænu samstarfi á skógasviðinu, hafa yfirsýn um þær rannsóknir sem væru í gangi, stuðla að nýjum rannsóknarverkefnum og námstækifærum, efna til ráðstefna og skoðunarferða og halda á loft norrænum sjónarmiðum í alþjóðlegri skógarumræðu.

Hlutverkið mikilvægara nú en nokkru sinni

Í öllum meginatriðum er þetta hlutverk óbreytt enn þann dag í dag. Ráðstefnur NordGen Skog og þemadagar eru eftirsóttir viðburðir í skógargeiranum og margar umsóknir berast um þá námstyrki sem í boði eru. Þörfin á samstarfi um viðfangsefni skógræktar hefur síst minnkað frá því fyrir hálfri öld. Þvert á móti. Miklar breytingar steðja nú að heiminum og þar með að skógunum. Við þurfum að bregðast við þeim og beita rannsóknum og þekkingu til að áfram vaxi hraustir og gjöfulir skógar í norðrinu.

Frá árinu 1970 hefur norræna skógarsamstarfið verið í stöðugri þróun. Norræna fræ- og plönturáðið NSFP var formlega lagt undir Norrænu ráðherranefndina árið 1986 og tíu árum síðar var því falið það hlutverk að varðveita erfðaauðlindir norrænna skóga. Það hlutverk er nú aðallega á höndum sérstaks vinnuhóps um erfðaauðlindir. Árið 2008 var norræna skógarsamstarfinu slegið saman við annað norrænt samstarf um plöntur og húsdýr undir merki NordGen.

Rafrænn þemadagur og afmælisveisla

Edda S. Oddsdóttir flutti ávarp á afmælishátíðinni fyrir Íslands hönd. Þar sýndi hún meðal annars möguleg vaxtarskilyrði sitkagrenis á Íslandi miðað við að meðalhiti hækkaði um 4 stig. Skjámynd úr myndbandi NordGenNú þegar NordGen Skog stendur á fimmtugu er það fullt af fjöri, sveigjanleika og hugmyndaauðgi sem sést meðal annars á því að það lét veirufaraldurinn ekki halda aftur af sér að fagna tímamótunum. Þótt ekki væri hægt að halda hefðbundinn þemadag eins og venjan er var efnt til rafræns þemadags í staðinn. Hann fór fram 2. apríl í vor og fyrirlestrarnir eru allir aðgengilegir á vefnum. Eins var með afmælishátíðina sem halda átti. Hún varð að vera rafræn líka. Að óbreyttu hefði ráðstefna verið haldin í tengslum við hana en henni var aflýst. Afmælishátíðin fór hins vegar fram 16. september og þar fluttu fulltrúar aðildarlanda NordGen ávarp, hver úr sínu landi ásamt því sem fluttar voru afmæliskveðjur. Edda S. Oddsdóttir, sviðstjóri rannsóknasviðs hjá Skógræktinni flutti ávarp fyrir Íslands hönd og Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóga, afmæliskveðju frá Skógræktinni. Hér fyrir neðan eru hlekkir sem smella má á til að sjá annars vegar fyrirlestrana frá þemadeginum og hins vegar afmælisviðburðinn.

Texti: Pétur Halldórsson