Skógræktarfélag Kópavogs boðar til fræðslufundar fimmtudaginn 26. október kl. 20. Þar flytur Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri erindi í máli og myndum um uppgræðslu og skógrækt á Hólasandi. Þar hefur náðst einstaklega góður árangur við uppgræðslu örfoka lands.
Í nýútkomnu tölublaði héraðsfréttablaðsins Skessuhorns sem gefið er út í Borgarnesi er í dag rætt við Valdimar Reynisson, skógarvörð á Vesturlandi, meðal annars um kolefnisbindingu. Valdimar bendir á að skógrækt sé ein einfaldasta leiðin sem við höfum til að binda kolefni.
Framtíð landbúnaðar á Norðurlandi vestra verður rædd á ráðstefnu sem haldin verður í Félagsheimilinu á Hvammstanga á morgun, föstudaginn 20. október. Meðal frummælenda er Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri og ræðir skógrækt sem þátt í fjölbreyttari landbúnaði.
Kraftaverk má vinna með lífrænum úrgangi sem til fellur í samfélaginu, til dæmis á sveitabæjum. Næringarskortur á melum gerir að verkum að þeir gróa seint upp þrátt fyrir beitarfriðun. Flýta má mjög fyrir gróðurframvindu með því að bera lífrænan áburð á melana. Gott dæmi um þetta er uppgræðslustarf sem unnið er í landi Brekkukots í Reykholtsdal.
Skráningu lýkur í dag á tíunda Umhverfisþing sem haldið verður föstudaginn 20. október 2017 í Silfurbergi í Hörpu í Reykjavík. Að þessu sinni verða loftslagsmál í brennidepli þingsins. Hreinn Óskarsson, sviðstjóri samhæfingarsviðs Skógræktarinnar, verður fulltrúi Skógræktarinnar í pallborði.