Þorvaldur Jónsson, bóndi í Brekkukoti, segir mjög sniðugt að nota sauðatað, dreifa því með keðjudrei…
Þorvaldur Jónsson, bóndi í Brekkukoti, segir mjög sniðugt að nota sauðatað, dreifa því með keðjudreifara og gróðursetja trén beint í landið á eftir.

Bóndi í Reykholtsdal hefur grætt upp 80-90 hektara og sett niður 34.000 tré

Kraftaverk má vinna með lífrænum úrgangi sem til fellur í samfélaginu, til dæmis á sveitabæjum. Næringarskortur á melum gerir að verkum að þeir gróa seint upp þrátt fyrir beitarfriðun. Flýta má mjög fyrir gróðurframvindu með því að bera lífrænan áburð á melana.

Gott dæmi um þetta er öflugt starf Þorvaldar Jónssonar, bónda í Brekkukoti í Reykholtsdal Borgarfirði. Þorvaldur fór fljótlega eftir að hann tók við búi í Brekkukoti 1990 að fikta við að bera moð undan súgþurrkunargrindum í hlöðunni á svæði þar sem hafði verið malarnám. Smám saman vatt landbótastarfið upp á sig og Þorvaldur hefur náð góðum tökum á nýtingu lífræns úrgangs sem til fellur á búinu til landgræðslustarfa og skógræktar.

Þegar Þorvaldur fór að sjá árangur segir hann að fiktið hafi orðið að fíkn og nú hefur hann grætt upp um 80-90 hektara sem áður voru bara berir melar og eru nú orðnir grasi grónir. Rétt fyrir aldamótin var líka farið að rækta skóg á svæðinu, m.a. á svæði þar sem Þorvaldur hefur notast við seyru sem áburð.

Settar hafa verið niður um 34.000 trjáplöntur. Þorvaldur segir mjög sniðugt að nota sauðatað, dreifa því með keðjudreifara og gróðursetja trén beint í landið á eftir.

Hlynur Gauti Sigurðsson gerði myndbandið tók myndirnar og viðtalið við Þorvald.

Moð, hnoð og skítkast

Texti: Pétur Halldórsson