Ein einfaldasta leiðin til að binda kolefni er að rækta skóg, segir skógarvörðurinn á Vesturlandi

Í nýútkomnu tölublaði héraðsfréttablaðsins Skessuhorns sem gefið er út í Borgarnesi er í dag rætt við Valdimar Reynisson, skógarvörð á Vesturlandi, meðal annars um kolefnisbindingu. Valdimar bendir á að skógrækt sé ein einfaldasta leiðin sem við höfum til að binda kolefni.

Í kynningu á viðtalinu á vef Skessuhorns segir:

Valdimar Reynisson er skógarvörður á Vesturlandi og hefur starfað við skógrækt síðan 1990. Hann hefur starfað í Hvammi í Skorradal frá árinu 2011, en þar er starfsstöð þjóðskógasviðs Skógræktarinnar á Vesturlandi. Starfssvæði þjóðskógasviðs á Vesturlandi nær frá Dölum og suður í Hafnarfjörð og telur samtals 30 skógræktarsvæði, en þar af eru átta í Skorradal. Skessuhorn hitti Valda í Hvammi og fræddist um starfsemi þjóðskógasviðs Skógræktarinnar á Vesturlandi. „Við sjáum um jarðir sem Skógræktin á og hefur umsjá yfir, það er að segja ríkisjarðir. Samtals eru þetta 30 svæði í landshlutanum. Nokkur þeirra eru leigð út til skógræktarfélaga og annarra félagasamtaka, til dæmis Vatnaskógur sem er alfarið í umsjá KFUM og K, sem einmitt leigir skóginn af Skógræktinni,“ útskýrir hann. „Flest verkefni okkar eru hér í Skorradal,“ segir hann.

Hjá Skógræktinni á Vesturlandi eru tveir starfsmenn í fullu starfi auk Valda og von er á einum til viðbótar um næstu mánaðamót. „Auk þess fáum við síðan til okkar nema á hverju ári frá hinum ýmsu löndum. Flestir koma frá Danmörku en í gegnum tíðina hafa komið hingað skógfræðinemar frá flestum Evrópulöndum,“ segir Valdi. „Það er dálítið skrítið þegar maður hugsar út í það. Skógar eru ekki beint það fyrsta sem maður tengir við Ísland,“ bætir hann við. „En það eru auðvitað sömu grunnatriðin í skógrækt sama hvar maður er í heiminum. Þetta eru sömu fræðin og sömu handtökin,“ bætir hann við.

Sjá ítarlegt viðtal við Valdimar Reynisson í Skessuhorni sem kom út í dag [18. okt. 2017].