Skógræktarfélag Reykjavíkur efnir til Skógarleika laugardaginn 1. júlí. Ævintýraleg stemmning verður í Furulundi þar sem gestir á öllum aldri njóta töfra skógarins. Keppt verður í hefðbundnum skógarhöggsgreinum. m.a. axarkasti, sporaklifri og bolahöggi. Í boði verður upplifunarganga, tálgun, Teepee-tjald, grill, ketilkaffi o.fl. 
Gamalt og virðulegt birkitré á bökkum Lagarfljóts í Gatnaskógi er nú fallið fram af bakkanum en lifir enn. Tréð prýddi kápu bókarinnar Íslandsskóga eftir Sigurð Blöndal og Skúla Björn Gunnarsson.
Tíu manna lið Skógræktarinnar lenti í 46. sæti í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon sem lauk á föstudag. Liðið hjólaði kílómetrana 1358 á 44 klukkustundum, 12 mínútum og 56 sekúndum. Alls kepptu 111 lið í B-flokki tíu manna liða. Árangur Skógræktarinnar í ár er töluvert betri en í fyrra þegar liðið lenti í 65.-68. sæti á tímanum 45:36:10. Áheitasöfnun liðsins gekk vel og söfnuðust 81.000 krónur til styrktar björgunarsveitunum í landinu.
Víða ber nú mjög á brúnleitu birki á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Sökudólgurinn er birkikemba sem herjar á birkið en þess má vænta að trén nái sér fljótlega og verði græn á ný enda fara lirfur kembunnar að púpa sig.
Skógræktin sendir annað árið í röð tíu manna lið til leiks í hjólreiðakeppninni Wow Cyclothon. Tíu manna liðin verða ræst við Egilshöll í Reykjavík kl. 19 í kvöld. Ágóðinn af áheitasöfnun keppninnar í ár rennur til Landsbjargar.