Þegar forstöðumenn stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins gengu um Gatnaskóg í síðustu viku ko…
Þegar forstöðumenn stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins gengu um Gatnaskóg í síðustu viku kom í ljós að þetta gamla tré á fljótsbakkanum sem margir kannast við var fallið. Enn er þó líf í því enda slitnaði það ekki upp með rótum.

Tré eru lengi að vaxa en geta líka verið lengi að drepast

Gatnaskógur er sá hluti Hallormsstaða­skógar sem var „einasti skógurinn á Íslandi“, eins og fyrsti skógræktarstjórinn, Agner F. Kofoed-Hansen, komst að orði fyrir rúmum hundrað árum. Þar er enn að finna elstu trén á Íslandi. Ólafur Eggerts­son, sérfræðingur á Mógilsá, taldi þar árhringi og eru elstu trén nú um 200 ára gömul. Þau elstu gætu reyndar verið nokkru eldri því ekki næst að telja alla árhringi í trjám sem eru orðin hol að innan.

Eitt er tré í Gatnaskógi við bakka Lagarfljóts sem oft hefur vakið athygli fyrir virðulegheit og sérstaklega gildan bol af íslensku birki að vera. Margir hafa myndað það í áranna rás. Það prýddi m.a. kápu bókar Sigurðar Blöndals og Skúla Björns Gunnarssonar, Íslands­skóga, sem gefin var út árið 1999, en myndina tók Sigurður 1983.

Rúmum 30 árum seinna, árið 2014, var tréð farið að halla ískyggilega, eins og sjá má á myndinni, enda Fljótið smám saman að naga í bakkann. Viðmiðið á myndinni er bandaríski sveppafræðingurinn Lawrence Millman.


Í síðustu viku voru forstöðumenn stofnana umhverfis- og auðlindaráðuneytisins í heimsókn og var þá gengið um Gatnaskóg. Tréð góða var þá fallið fram af bakkanum. Það hefur þó hálfbrotnað vegna mikils halla en ekki  rifnað upp með rótum og því nær það áfram að laufgast. Það gæti reyndar lifað svona í mörg ár. Tré tekur gjarnan heilan mannsaldur eða meira að vaxa og það getur jafnvel tekið enn lengri tíma fyrir þau að drepast eftir að fyrstu ummerki hrörnunar koma fram.


Texti og myndir: Þröstur Eysteinsson