Hjólalið Skógræktarinnar 2017 við verðlaunaafhendingu að lokinni keppni á föstudag. Liðið lenti í 46…
Hjólalið Skógræktarinnar 2017 við verðlaunaafhendingu að lokinni keppni á föstudag. Liðið lenti í 46. sæti af 111 liðum og náði betri tíma en í fyrra þrátt fyrir verra veður.

Hefur safnað 81000 krónum fyrir Landsbjörg

Tíu manna lið Skógræktarinnar lenti í 46. sæti í hjólreiðakeppninni WOW Cyclothon sem lauk á föstudag. Liðið hjólaði kíló­metr­ana 1.358 á 44 klukkustundum, 12 mínút­um og 56 sekúndum. Alls kepptu 111 lið í B-flokki tíu manna liða. Árangur Skóg­rækt­arinnar í ár er töluvert betri en í fyrra þegar liðið lenti í 65.-68. sæti af um hundrað lið­um á tímanum 45:36:10. Áheitasöfnun liðsins gekk líka vel og söfnuðust 81.000 krónur til styrktar björgunarsveitunum í landinu.

Veðrið var heldur óhagstæðara en í fyrra þegar Skógræktin tók þátt í keppninni í fyrsta sinn. Keppendur nutu þá hægviðris og þurrviðris mestalla leiðina. Nú var reyndar nokkur meðbyr og þurrt í veðri langleiðina norður í land en í Húna­vatns­sýsl­um og Skagafirði rigndi. Á Akur­eyri var stytt upp og hélst veðrið gott allt austur fyrir Egilsstaði. Þegar komið var á Öxi var tekið að blása hressilega af suðaustri og þær fregnir bárust að spáð væri stormi á Austur- og Suðausturlandi. Öftustu liðin voru látin hætta keppni vegna spárinnar en lið Skógræktarinnar var allan tímann framan við miðju keppnisliðanna og slapp því við óveðrið að mestu. Á Suðurfjörðum Austfjarða rigndi allnokkuð á köflum en veður hélst þokkalegt með hægum vindi allt þar til komið var undir Eyjafjöll. Þar tók vestan hvassviðri og rigning á móti liði Skógræktarinnar og leist sumum liðsfélögum ekki á blikuna um skeið. Þegar komið var vestur fyrir Eyjafjöllin tók þó að lægja og vindur að snúast smám saman til norðan- og síðar norðaustanáttar sem var á stundum í bakið þegar Selfoss var að baki.


Líkt og í fyrra var eitt sprungið dekk það eina sem kom upp á með reiðhjólin en hvíldarbíll liðsins gaf hins vegar upp önd­ina á Öxi og hætti að framleiða rafmagn. Því þurfti að bregðast skjótt við og fá bíl í staðinn. Fjölgað var í liðsbílnum sem flutti þá sem voru að hjóla hverju sinni en þrír tóku hvíldir í jeppa sem fenginn var í snatri ofan af Hallormsstað. Allir liðsfélagar komu heilir heim.

Markmiðið með þátttöku Skógræktarinnar í hjólreiðakeppninni er ekki síst að þjappa starfsfólki stofnunarinnar saman en einnig að vekja athygli á starfseminni og vinna að jákvæðri ímynd. Mikilvægast er þó það málefni sem safnað er fyrir með áheitum á liðin í keppninni. Skógræktin stóð sig vel í söfnuninni og nú hafa safnast 81.000 krónur á nafni liðsins. Í heild hafa safnast rúmar tuttugu milljónir króna hjá öllum liðunum samanlagt. Rennur féð óskipt til Landsbjargar og nýtist björgunarsveitunum í landinu til góðra verka. Enn er hægt að leggja fé til söfnunarinnar á vefnum wowcyclothon.is.


Hjólalið Skógræktarinnar þakkar stuðn­ings­fólki sínu fyrir framlögin en einnig vill liðið koma þökkum til alls samstarfs­fólks, vina og ættingja sem studdu liðið með margvíslegum hætti, ekki síst þeim sem komu að þjóðveginum, heilsuðu upp á liðið og hvöttu það áfram, jafnvel með góð­gerðum en alltaf með brosi og hvatningar­orðum Bakhjarlarnir eiga líka skilið góðar þakkir, Skógræktin, Landgræðsla ríkisins, Hekluskógar, Sólskógar, Loftmyndir, bílaleigan Herz, ferðaskrifstofan Saga Tours og Vífilfell.

Á Facebook-síðu liðsins má sjá fleiri mynd­ir, myndbönd og frásagnir af ferðinni. Með­al annars gerði Hlynur Gauti Sigurðsson, kvikmyndagerðarmaður Skógræktarinnar, skemmtileg myndbönd af móttökum sem lið Skógræktarinnar fékk við Baulu í Borg­ar­firði og á Selfossi.

#wowskograektin2017
#wowcyclothon

Texti: Pétur Halldórsson